Hálfu ári eftir að Hæstiréttur átaldi þann drátt sem orðið hefur á dómkvaðningu yfirmatsmanna í máli ákæruvaldsins gegn Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni virðist sem skriður sér kominn á viðræður við hugsanlega yfirmatsmenn. Þýðing er hafin á skjölum málsins þrátt fyrir að staðfesting liggi ekki fyrir.
Þeir Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa 17. maí 2012 veist í sameiningu með ofbeldi að fanga á Litla-Hrauni og veitt honum högg á kvið með þeim afleiðingum að rof kom á milta og á bláæð frá miltanu sem leiddi til dauða hans skömmu síðar af völdum innvortis blæðinga.
Við fyrirtöku málsins í byrjun október 2013 var tekist á um hvort fá ætti erlenda sérfræðinga til að fara yfir mat réttarmeinafræðings á krufningarskýrslu og yfir skýrslu tveggja prófessora í sálfræði sem dómkvaddir voru til að greina atferli fanga á upptökum úr öryggismyndavélum. Héraðsdómur Suðurlands féllst á kröfu verjenda um yfirmatsmenn en rúmt ár hefur liðið án dómkvaðningar þeirra. Raunar féllst dómari málsins á tillögu verjenda í málinu um yfirmatsmenn en Hæstiréttur felldi úrskurð um þá úr gildi í maí síðastliðnum og gerði dómaranum sjálfum að finna matsmenn.
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur dómari málsins litið til Norðurlanda eftir yfirmatsmönnum og er þýðing á skjölum málsins hafin yfir á „skandinavísku“. Hins vegar hafa engin nöfn í þessu sambandi verið staðfest. Enn er því að bíða að málið verði tekið fyrir að nýju. Á meðan afplána Annþór og Börkur dóm fyrir eldri mál.