Miðlæg deild innan lögreglunnar sér ein um símhleranir. Upptökur eru vistaðar inn í sérstakt kerfi, Hlerann, þar sem þær eru aðgengilegar þeim sem vinna að rannsókn hverju sinni. Erfitt þykir hins vegar að halda utan um aðgangsstýringu og skráning á því hver tekur afrit af upptökum liggur ekki fyrir.
Þetta kom fram í máli Kolbrúnar Benediktsdóttur, saksóknara hjá ríkissaksóknara, á málþingi Orators, félagi laganema við Háskóla Íslands, um símhleranir. Ríkissaksóknari hefur eftirlit með símhlerunum lögreglu og fór Kolbrún yfir framkvæmdina. Hún sagði hugmyndavinnu hafna við að bæta framkvæmd símhlerana en það kosti að breyta kerfinu og þar strandi málið.
Kolbrún sagði skráningu í Hleranum ekki nógu góða og að sú hugmynd hafi komið upp að færa allt kerfið í LÖKE, skráningakerfi ríkislögreglustjóra. Þar skráist allar þær aðgerðir lögreglumanna og væri þá auðveldara að halda utan um það þegar tekin eru afrit af upptökum og þar af leiðandi væri hægt að efla eftirlit ríkissaksóknara, til dæmis með því að upptökum sé örugglega eytt. „Það vilja allir að rannsókn og saksókn sé hafin yfir allan vafa. Það hefur enginn hagsmuni af því að þetta líti illi út og hægt sé að gagnrýna eitthvað við rannsókn mála,“ sagði Kolbrún.
Þá sagði hún að eingöngu sé mögulegt að hlusta á símtöl í rauntíma í aðstöðu hinnar miðlægu deildar sem er því mjög óalgengt. „Menn sitja ekki í sendibíl og hlusta á símtöl á meðan þau eru gerð. En það er hægt að hlusta á símtölin um leið og þeim lýkur [í gegnum Hlerann].“ Meginreglan sé að hlustað sé á upptökur dögum eða jafnvel vikum eftir símtalið.