Leiðréttingin mun auka eftirspurn eftir neysluvörum, þar með talið dýrum vörum eins og bifreiðum. Um þetta eru viðmælendur Morgunblaðsins í atvinnulífinu sammála.
Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, telur að leiðréttingin muni eiga þátt í mikilli jólaverslun í ár. Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir markaðinn hafa verið í frosti á síðustu vikum. „Það verður að ætla að leiðréttingin muni örva fasteignamarkaðinn,“ segir Grétar.
Loks segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, bílasala telja að leiðréttingin muni örva sölu en hins vegar ekki leiða til sölusprengju. Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir kaupmenn búast við meiri sölu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.