Sala á nýjum lúxusbílum á fyrstu 45 vikum ársins var 43,7% meiri en á sama tímabili í fyrra, jókst úr 492 bílum í 707. Þar af hefur salan til einstaklinga farið úr 316 lúxusbílum í 356, sem er 12,7% aukning.
Með lúxusbílum er átt við vörumerkin Audi, BMW, LandRover, Lexus, Mercedes Benz, Porsche, Tesla og Volvo. Meðalverð slíkra bifreiða er um 8,5 milljónir kr., samkvæmt greiningu Brimborgar, og hafa því selst lúxusbílar fyrir sex milljarða í ár.
Athygli vekur að sala á lúxusbílum til fyrirtækja eykst um 63,6%. Á fyrstu 45 vikum ársins keyptu fyrirtæki þannig 175 lúxusbíla en 107 í fyrra. Til samanburðar keyptu fyrirtækin samtals 204 lúxusbíla árin 2009, 2010, 2011 og 2012. Salan er þó langt undir meðaltali áranna 1999 til 2008, sem var um 422 lúxusbílar á ári.