„Þetta hefur þróast alveg gríðarlega undanfarin ár. Áður fyrr var svona einn og einn jólabjór að dúkka upp en síðustu svona fjögur ár hefur þetta undið upp á sig og yfir í þetta fár sem brýst út á hverju ári,“ segir sagnfræðingurinn og bjóráhugamaðurinn Stefán Pálsson í samtali við mbl.is, aðspurður um þróun og útbreiðslu jólabjórsins.
Á morgun hefst sala á jólabjórum í Vínbúðum ríkisins og að sögn Stefáns myndast oft ákveðin stemmning í kringum það.
„Það er alveg ótrúlegasta fólk, sem drekkur ekki bjór dagsdaglega, sem hleypur til á fyrsta degi og sankar að sér öllum tegundum í vínbúðunum. Vinnustaðir eru líkar farnir að taka sig saman í kringum þennan dag og smakka allar tegundir,“ segir Stefán sem telur líklegt að sölureglur ríkisins tengist þessari spennu.
„Að hluta til byggist þetta á þessum sölureglum hjá ríkinu með árstíðarbjórana. En hluta til er þetta það að það er alþjóðleg hefð fyrir því að búa til einhverskonar bjóra sem eru jafnvel aðeins vandaðri eða sterkari og kalla þá jólabjóra. Við getum séð það alveg 150 ár aftur í tímann.“
Stefán segir að stemmningin í kringum jólabjórinn sé alltaf góð. „Ég hef orðið var við það að margir vinnustaðir eru komnir með þá hefð að koma saman, kaupa góða blöndu af jólabjórum og svo er sett upp kosning í hópnum um besta bjórinn.“
Stefán segir að aðalframleiðendur jólabjórs hér á landi séu stóru brugghúsin, Vífilfell og Ölgerðin. „En Ölgerðin nýtur þess að vera með danska Tuborg jólabjórinn með allri sinni markaðssetningu ofan á sitt, sem er náttúrulega mjög stórt. Tuborg bjó til svona þennan tiltekna dag þar sem jólabjórinn fer í hillurnar.“
Hann segir þó að síðustu ár hafi minni aðilar fært sig upp á skaftið í auknum mæli. „Mér sýnist að allnokkur, ef ekki flest, litlu brugghúsin séu að setja tvo jólabjóra á markaðinn í ár. Þá eru þeir aðilar dálítið að miða inn á alla þá sem kaupa einn af hverri tegund.“
Stefán segir jafnframt að síðustu ári hafi smekkur Íslendinga varðandi bjór orðið flóknari og að margt sem er í hillunum núna hefðu Íslendingar líklega fúlsað við áður.
„Brugghús eru að koma með bjóra í dag sem hefðu þótt of furðulegir og skrýtnir fyrir kannski 5 til 6 árum og verið fúlsað við. Eins og að vera með appelsínubörk í blöndunni eða kryddtegundir sem kallast á við piparkökurnar og þar fram eftir götunum. En nú er fjölbreytnin orðin miklu meiri. Þetta var þannig áður fyrr að jólabjórinn var svolítið keimlíkur öðrum bjór, með agnar litlu karamellumalti sem getur smá rauðan tón og sætleika. Það hefur sem betur fer breyst.“
En af hverju eru brugghús orðin fleiri en áður? Stefán segir að vissum hluta eru Íslendingar núna að laga sig að alþjóðlegum bjórhefðum.
„Að hluta til erum við að ná í skottið á alþjóðlegri hreyfingu. Örbrugghúsavæðingin var að byrja í Bandaríkjunum fyrir 20 til 25 árum síðan þar sem bruggarar voru að rifja upp óvæntari bjórstíla. Þetta þróaðist síðan til Evrópu og brugghús fóru að spretta upp eins og gorkúlur,“ segir Stefán og bætir við að áhugavert hafi verið að sjá að litlu brugghúsin hér á landi stóðu af sér efnahagshrunið árið 2008.
„Það er allt öðruvísi en í til dæmis Danmörku og í mörgum löndum í kringum okkur. Þegar að efnahagskreppan kom var oft það fyrsta sem fólk skar niður fínni og dýrari bjór og fór aftur í ódýru stórframleiðsluvöruna. Þetta gerðist ekki hérna sem mörgum finnst mjög áhugavert. En það er bara með þetta eins og önnur matvæli að ef að fólk kíkir aðeins yfir í betri vandaðri bjóra þá fer það ekkert svo glatt til baka aftur.“
Stefán bendir á að auglýsingabannið á bjór hafi einnig áhrif á áhugann. „Við erum í því umhverfi að það megi ekki auglýsa bjór. En það má fjalla um hann og það er alltaf áberandi í kringum jólin í fjölmiðlum. Þá er hægt að vera með samanburð, gefa einkunnir og breyta þessu í keppni og það ýtir undir þetta. Það er samt ekki skrýtið í samfélagi þar sem bjórauglýsingar eru bannaðar að það sé til árstími þar sem þetta loksins kemst í öll blöð og fjölmiðla að þá verði svolítið sprenging.“
Aðspurður hvort að hann ætli að skella sér í vínbúðina á morgun segist Stefán ekki vera viss. „Ég er mjög mikið að vinna einmitt þessa dagana og það getur verið að ég þurfi að sleppa þessu á morgun. En ég læt ekkert líða marga daga. Það eru nokkrir nýir jólabjórar í ár sem ég er mjög spenntur að prófa. Ég er reyndar bara þannig innstilltur dagsdaglega að þegar ég fer í ríkið og sé rauða miðann þar sem á stendur "Ný vara" þá á ég rosalega bágt með að grípa ekki með eina flösku eða tvær til að prufa.“
Stefán á erfitt með að segja hver er hans uppáhalds jólabjór enda úr mörgu að velja. „Jólin er tíminn þar sem fólk er að borða reykta kjötið og svona þyngri kjötmáltíðir og með því vill ég hafa bjórinn dálítið rauðan, sætan og „karamellaðan“. Fyrir norðan ríkir þessi einstaka hefð hjá bjórgerðinni Einstök að selja bock eða doppelbock sem er þýsk bjórtýpa og alls enginn jólabjór. En mér finnst það mjög vel til fundið og ég kaupi mér yfirleitt Einstök Doppelbock þegar að jólin nálgast.“