Láti leiðréttinguna renna í sjóð

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynntu niðurstöðu skuldaleiðréttingar heimilanna …
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynntu niðurstöðu skuldaleiðréttingar heimilanna í Hörpu. mbl.is/Kristinn

Marinó G. Njálsson, sem lengi hefur barist fyrir hagsmunum heimilanna, og eiginkona hans Harpa Karlsdóttir vilja að þau sem eiga rétt á peningum vegna leiðréttingar ríkisstjórnarinnar en kjósi að þiggja þá ekki geti látið þá renna í sjóð sem nýttur verði til að byggja upp heilbrigðiskerfi landsins og bæta stöðu aldraðra og öryrkja.

Þetta kemur fram í færslu á bloggsíðu Marinós. Þar segir að hjónin hafi, eins og margir aðrir landsmenn, fengið tilkynningu um að þau ættu rétt á leiðréttingu vegna þeirra verðtryggðu fasteignalána sem þau voru með á árunum 2008 og 2009.

Ætla ekki að þiggja leiðréttinguna

„Við reiknuðum aldrei með að upphæðin yrði há, en sóttum samt um. Vegna breyttra aðstæðna, þá teljum við hins vegar heiðarlegast af okkur að nýta ekki leiðréttinguna,“ segir í færslunni.

Hjónin segjast ekki ætla að þiggja peningana. Þau vilji aftur á móti skjóta þeirr hugmynd að ríkisstjórninni að þeir peningar sem falli til, lágar fjárhæðir eða háar, fari í sjóð sem hafi það verkefni að byggja upp heilbrigðiskerfi landins og bæta stöðu öryrkja og aldrara.

„Þannig að, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, við biðjum ykkur að leggja við hlustir og og sjá til þess að þetta verði gert mögulegt,“ skrifa hjónin.

Þau sem fá óbragð í munninn

Þá skora þau einnig á alla sem sóttu um og geta fengið leiðréttingu, en telja sig ekki þurfa á henni að halda, telja upphæðina svo litla að hún skipti ekki máli, telja sig fá óbragð í munninn við að þiggja hana og svo framvegis að þiggja ekki leiðréttinguna með ósk um að upphæðin sem þeim yrði úthlutað fari í áðurnefndan sjóð.

„Sérstaklega skorum við á formenn stjórnmálaflokka á þingi, sem sótt um og geta fengið leiðréttingu lána, að gera slíkt hið sama.“

Allt hægt ef viljinn er fyrir hendi

„Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi,“ segir Marinó í samtali við mbl.is, aðspurður um hvernig mögulegt væri að framkvæma þetta, setja slíkað sjóð á fót og óska eftir að fjárhæðirnar renni í hann.

„Ríkissjóður veit hverjir þiggja leiðréttinguna. Það þarf ekker tannað en að nýta þann pening sem þarna verður afgangs, að þeim möguleika verði bætt við að fólk geti afsalað sér rétti til hennar,“ segir Marinó.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert