„Þetta er skýrt mynstur, þetta er óþolandi og þetta er vanvirðing,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi við upphaf þingfundar í dag. Vísaði hann þar til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi yfirgefið þingfund í gær eftir að hafa flutt þinginu skýrslu um skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna undir liðnum umræða um fundastjórn forseta Alþingis. Hann sagði Sigmund hafa með framgöngu sinni ekki bara sýnt stjórnarandstöðunni óvirðingu heldur Alþingi öllu. Samkomulag hefði verið um að forsætisráðherra gæti yfirgefið umræðuna eftir að framsögum væri lokið en hann hefði hins vegar gert það á meðan á þeim hafi staðið án þess að láta nokkurn vita.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, spurði forseta hvert forsætisráðherra hefði farið. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, tók til máls og sagðist hafa fengið þær skýringar að forsætisráðherra hefði þurft að fara fyrirvaralaust á áríðandi fund. Stjórnarandstæðingar hrósuðu Einari fyrir að hafa frestað umræðu um skýrslu ráðherrans í gær þegar ljóst var að hann hefði yfirgefið þinghúsið.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði Sigmund hafa sýnt lítilsvirðingu gagnvart þinginu sem enginn ætti að líða. Velti hann því fyrir sér hvaða fundur gæti verið svo mikilvægur að hann gengi framar umræðu í þinginu um stærsta kosningaloforð Framsóknarflokksins. Einar sagðist ekki hafa aðrar upplýsingar en að ráðherrann hefði þurft að fara á áríðandi fund sem ekki hafi legið fyrir áður.