Afkoma ríkissjóðs umfram væntingar

Tekjur ríkissjóðs hafa aukist um 16 milljarða og hafa skattstofnar …
Tekjur ríkissjóðs hafa aukist um 16 milljarða og hafa skattstofnar tekið við sér umfram væntingar. mbl.is/Styrmir Kári

Tekjur ríkissjóðs hafa aukist um 16 milljarða og hafa skattstofnar tekið við sér umfram væntingar. Eykur þetta svigrúm ríkisstjórnarinnar til að skerpa áherslur hennar í ákveðnum málaflokkum og mun það birtast við aðra umræðu fjárlaganna.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is en hann kom á fund fjárlaganefndar í dag.

Enn frekari svigrúm fyrir skuldaaðgerðirnar

„Ég mælti fyrir fjáraukalögum í vikunni þar sem gengið var út frá því að heildarjöfnuðuinn væri 42 milljarðar. Við sögðum að í tilefni af því að afkoma ríkissjóðs væri langt fram úr væntingum og að við hyggðumst hraða skuldaaðgerðunum. Í dag kynntum við fyrir fjárlaganefndinni uppfærða tekjuáætlun og um leið þær breytingar sem þarf að gera á gjaldahliðinni, þar með talið að taka inn skuldaaðgerðirnar,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að þurft hafi að uppfæra tekjuætlun ríkissjóðs. „Það var vegna þess að frá því að fjáraukafrumvarpið var samið höfum við fengið álagningu á lögaðila og nánari uppfærslu á öðrum tekjustofnum.“

Efnahagslífið að taka við sér

„Það sem við sjáum að gerist hjá okkur er tekjunar eru að aukast um rúmlega 16 milljarða og þannig skapast enn frekar svigrúm fyrir skuldaaðgerðirnar og niðurstaðan er þá sú að þrátt fyrir að skuldaaðgerðir verði teknar inn í fjáraukafrumvarpið fyrir 2014, þá mun afkoman samt sem áður batna,“ segir Bjarni.

Þá hafa skattstofnanir tekið við sér umfram væntingar. „Það er augljóst að við erum að sjá vísbendingar um að efnahagslífið sé að taka við sér,“ segir Bjarni.

„Meginskilaboðin eru þau að skatttekjur og tryggingagjald er allt að hækka enn frekar en við gerðum ráð fyrir og án skuldaaðgerðanna hefði stefnt í afgang á fjárlögum upp á 60 milljarða en fjárlög gerðu ráð fyrir 1 milljarða í afgang.“

Skilar sér að einhverju leyti inn í fjárlög næsta árs

Bjarni segir að næstu daga verði unnið að fjárlögum næsta árs en þau verða tekin til annarrar umræðu á Alþingi í þarnæstu viku.

„Það er ljóst að þessar vaxandi tekjur munu alls ekki að öllu leyti fylgja okkur inn á næsta ár. En þó eru sumir skattstofnanna að hækka inn á næsta ár, það eykur svigrúm okkar til að skerpa áherslur ríkisstjórnarinnar í megin málaflokkum, eins og í velferðarmálum, heilbrigðismálum og öðrum mikilvægum málaflokkum og það mun þá birtast við aðra umræðu fjárlaganna.“

„Okkar bíður nú að leggja mat á það að hve miklu leyti auknar tekjur munu fylgja okkur inn á næsta ár en það er alveg ljóst að við fáum með þessu eitthvað svigrúm til þess að gera betur á ákveðnum sviðum, kynnum það við frekari vinnslu á fjárlagagerðinni,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert