Fjársterkir aðilar hafa að undanförnu stofnað fjölda félaga um byggingu íbúðarhúsnæðis á eftirsóttum stöðum í Reykjavík. Reykjavíkurborg kynnti í vikunni byggingu þúsunda íbúða, en þar er um að ræða íbúðir í eigu fjárfesta, Búsetaíbúðir og íbúðir sem ætlaðar eru námsmönnum.
Meðal fjárfesta sem lagt hafa fé í íbúðir eru Steinunn Jónsdóttir, meðstjórnandi í BYKO, en hún á 13,9% hlut í Mánatúni hf. sem byggir nú 90 íbúðir í Mánatúni. Félagið hyggst byggja allt að 85 íbúðir til viðbótar.
Þá koma nokkrir fjárfestar að byggingu 77 íbúða í Skuggahverfinu. Sömu sögu er að segja af svonefndum Frakkastígsreit þar sem efnafólk fjárfestir í 68 íbúðum. Ingi Guðjónsson lyfjafræðingur kemur að félögum sem undirbúa miklar framkvæmdir í miðborginni. Viðskiptafélagi hans, Þorvaldur H. Gissurarson, er einnig umsvifamikill í gegnum ÞG Verk, að því er fram kemur í umfjöllun um þessar fjárfestingar í Morgunblaðinu í dag.