Maðurinn fannst við gröfu

Frá leitinni við Ölfusá í morgun.
Frá leitinni við Ölfusá í morgun. Ljósmynd Nökkvi Baldur

Lögreglan á Selfossi hefur ekki ástæðu til að ætla annað en að maðurinn sem fannst kaldur og hrakinn við gröfu við flugvöllinn á Selfossi fyrir hádegi í dag hafi farið út í Ölfusá ásamt bílnum sem fór út í ána í gærkvöldi.

Maðurinn dvelur nú á Landspítalanum. Enn hefur ekki verið hægt að spyrja manninn um slysið. Flugvöllurinn er um tveimur til þremur kílómetrum neðar en Selfosskirkja, en bifreiðin fór út í ána skammt frá kirkjunni kl. 22.40 í gærkvöldi.

Áður hafði komið fram að maðurinn hefði fundist við bakka Ölfusár, skammt frá flugvellinum. Björgunarsveitarmenn fundu manninn aftur á móti í gröfu á geymslusvæði við flugvöllinn. Maðurinn var kaldur og hrakinn en gat þó sagt til sín.

ATHUGASEMD sett inn 15. nóvember klukkan 9:12

Maðurinn fannst ekki inni í gröfu heldur á svæði verktaka við ána. Hann kom gangandi á móti björgunarsveitarmönnum sem voru við leit á þessu svæði.

Bílarnir hafa ekki fundist

Ekki verður leitað að bifreið mannsins og eru ákaflega litlar líkur taldar á því að hún finnist. Frekari upplýsingar um atburðarás málsins liggja ekki fyrir. 

Þann 12. maí 1990 hafnaði bifreið í Ölfusá en í henni voru fjögur ungmenni. Tvö þeirra komust lífs af en tveir ungir menn létu lífið. Bifreiðin hefur aldrei fundist.

Þá fór mjólkurbifreið út í ána árið 1944 þegar brúin slitnaði. Ökumanni hennar tókst að grípa í varahjól bifreiðarinnar og komst hann lífs af. Bifreiðin kom aftur á móti ekki í leitirnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert