Nemar nota ADHD-lyf á álagstímum

mbl.is/Kristinn

„Ég ætla að fjalla um það sem kallast hugræn efling. Það þýðir að hægt sé að bæta hugræna getu einstaklinga eins og minni og athygli með framþróun í taugavísindum,“ segir taugasálfræðingurinn Magnús Jóhannsson í samtali við mbl.is en hann mun vera með erindi á málþinginu „Taugaefling og mörk mennskunnar“ í Norræna Húsinu á morgun.

Viðfangsefni málþingsins eru rannsóknir og hugmyndir sem hverfast um að efla starfsemi heilans og taugakerfisins. „Með tilkomu lyfja, nýrrar tækni og annarra inngripa hafa vaknað áleitnar spurningar um starfsemi heilans og hvort og hvernig æskilegt sé að hafa áhrif á hann.
Þá verður einnig fjallað um þróun gervigreindar og samspil manns og vélar,“ segir m.a. á viðburðarsíðu málþingsins á Facebook.

Háskólanemar nota lyfin á álagstímum

Að sögn Magnúsar hafa fundist ýmsar nýjar aðferðir til þess að efla hugann. Hægt er að senda rafboð inn í heilann og ígræða ákveðin rafskaut sem geta hjálpað við ýmsa sjúkdóma. Jafnframt hafa lyf verið notuð í auknum mæli, sérstaklega hjá háskólanemum í Bandaríkjunum og hefur það nú verið rannsakað.

„Talið er að 4 til 7% háskólanema í Bandaríkjunum séu greindir með ADHD. Þar eru háskólanemar farnir að nota lyf við ADHD, eins og rítalín og þess háttar, í auknum mæli á álagstímum til þess að einbeita sér betur. Bæði nemendur með greiningu og aðrir. Þetta  hefur vakið talsverða umræðu  í Bandaríkjunum og þá kvikna ýmis siðfræðileg álit á þessu. Sumir vilja meina að þetta sé óumflýjanlegt og það að fólk eigi að hafa aðgang að þessu sé framtíðin,“ segir Magnús.

Tengir saman ADHD lyf og Alzheimer lyf

Í erindinu mun hann segja frá þessum lyfjum en einnig lyfjum við Alzheimer sjúkdómnum sem eru jafnframt notuð til að bæta minni fólks. 

„Menn hafa verið að leiða líkur að því að það væri jafnvel næsta skref að allt fólk yfir fimmtugu færi að nota Alzheimer lyf til að koma í veg fyrir eðlilegar aldursbreytingar á minni en við förum öll að gleyma nöfnum og þess háttar á ákveðnum aldri. Ég mun fara yfir þetta og siðferðisleg álitamál sem geta vaknað í þessu samhengi.“

Magnús mun tengja saman stöðuna á þessum ákveðnum lyfjum og stöðuna á ADHD og Alzheimer. 

 „Þetta eru ekkert auðveldar greiningar og menn eru ekki búnir að fullkomna hvernig á að greina þá. Hvað þá hvort leyfa eigi heilbrigðum einstaklingum að nota lyfin.“

Magnús starfar sem taugasálfræðingur hjá Mentis Cura ehf. Þar er unnið að því að skoða leiðir til að meta áhrif ákveðna lyfja með að skoða mismunandi taugaboðanir í líkamanaum. „Ég kem inn á það í erindinu og þá kenningu að kannski er lausnin sú að það þarf að þróa leiðir til að sjá hvort lyf eru skaðleg og ef ekki þá hvort þau virki fyrir einstaklinginn. Þá geta læknar nýtt sér þá tækni til að ákveða hvort einstaklingur eigi að fara á þessi lyfi eða ekki.“

Magnús þekkir ekki til þess að háskólanemar hér á landi noti ADHD lyf til þess að skerpa á minni og einbeitingu en það hefur ekki verið rannsakað. „En ef það yrði þannig að allir gætu fengið ADHD lyf til þess að bæta athygli og skerpa minni á álagstímum vitum við til dæmis ekki hvað það myndi kosta. Ef það væri dýrt væru einhverjir sem hefðu ekki efni á því og þá skapast ójöfnuður.“

Málþingið á morgun hefst klukkan 13. Hér má sjá viðburðinn á Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert