Jarðskjálfti að stærð 5,4 mældist klukkan 11.25 í morgun á suðurbrún Bárðarbunguöskjunnar. Ein tilkynning barst úr Eyjafjarðarsveit um að skjálftinn hafi fundist þar.
Fyrr í morgun kom fram hjá Veðurstofu Íslands að engar markverðar breytingar hafi mælst á jarðskjálftavirkni í kringum Bárðarbungu og kvikuinnskotið frá því síðasta tilkynning var birt í gærmorgun.
Stærstu jarðskjálftarnir kringum öskjuna urðu í gærkvöldi, M4,9 kl. 20:46 á norðvesturbrún og M4,8 kl. 23:08 á norðurbrún. Átta aðrir skjálftar voru yfir fjórum og 21 á bilinu 3,0-3,9. Allt í allt mældust um 70 skjálftar kringum öskjuna.
Virkni í ganginum er lítil. Enginn af um það bil 15 skjálftum sem mældust þar fóru yfir M1,5; flestir voru í nyrðri hluta gangsins en nokkrir sunnar, undir Dyngjujökli. Minniháttar virkni hefur orðið vart í Herðubreið og austur af Öskju.
Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með sama styrk. Vefmyndavélar nýtast lítið sökum veðurs en þegar rofaði til, nokkrum sinnum síðdegis, voru engar breytingar sjáanlegar enda engar breytingar tilkynntar af vettvangi