Snarpur skjálfti við Bárðarbunguöskjuna

Eldgosið í Holuhrauni.
Eldgosið í Holuhrauni. mbl.is/RAX

Jarðskjálfti að stærð 5,4 mældist klukkan 11.25 í morgun á suðurbrún Bárðarbunguöskjunnar. Ein tilkynning barst úr Eyjafjarðarsveit um að skjálftinn hafi fundist þar.

Fyrr í morgun kom fram hjá Veðurstofu Íslands að engar markverðar breytingar hafi mælst á jarðskjálftavirkni í kringum Bárðarbungu og kvikuinnskotið frá því síðasta tilkynning var birt í gærmorgun.

Stærstu jarðskjálftarnir kringum öskjuna urðu í gærkvöldi, M4,9 kl. 20:46 á norðvesturbrún og M4,8 kl. 23:08 á norðurbrún. Átta aðrir skjálftar voru yfir fjórum og 21 á bilinu 3,0-3,9. Allt í allt mældust um 70 skjálftar kringum öskjuna.

Virkni í ganginum er lítil. Enginn af um það bil 15 skjálftum sem mældust þar fóru yfir M1,5; flestir voru í nyrðri hluta gangsins en nokkrir sunnar, undir Dyngjujökli. Minniháttar virkni hefur orðið vart í Herðubreið og austur af Öskju.

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með sama styrk. Vefmyndavélar nýtast lítið sökum veðurs en þegar rofaði til, nokkrum sinnum síðdegis, voru engar breytingar sjáanlegar enda engar breytingar tilkynntar af vettvangi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert