Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar leggur til við borgarráð að Grensásvegur verði þrengdur frá Miklubraut að Bústaðavegi, þannig að einvörðungu ein akrein verði í hvora átt, ásamt því að gerðir verði hjólastígar meðfram Grensásvegi, beggja vegna götunnar.
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að málið væri ekki fullmótað og einvörðungu hefðu verið send drög að breytingartillögu til borgarráðs. Enn ætti eftir að útfæra tillögurnar nánar, bæði hvað varðar gróðursetningu meðfram Grensásvegi og lagningu hjólastíga.
Aðspurður hvort það væri ekki enn verið að þrengja að einkabílnum með tillögu um slíka þrengingu sagði Hjálmar: „Jú, það má svo sem alveg orða það þannig en gatnakerfið hér í Reykjavík hefur fyrst og fremst verið byggt upp fyrir einkabíla. Við lítum svo á að með þessu séum við að bjóða borgarbúum upp á fjölbreyttari ferðamáta. Hvatinn að þessu er að gera borgina betri hjólaborg.“