Takturinn í heimilislífinu rofinn

Guðríður Helgadóttir á þrjár dætur í tónlistarnámi.
Guðríður Helgadóttir á þrjár dætur í tónlistarnámi. Ómar Óskarsson

„Það er forkastanlegt að það sé ekki komin lausn í þetta mál,“ segir Guðríður Helgadóttir, móðir þriggja dætra sem stunda tónlistarnám í Tónlistarskóla Kópavogs. Síðast var fundað í kjaradeilunni sl. mánudag og hefur ekki verið boðaður nýr fundur. 

Engin kennsla hefur farið fram síðan 22. október, vegna verkfalls Félags tónlistarkennara, hjá tveimur þeirra en kennari þeirrar þriðju er ekki í verkfalli. Hún segir það reynast erfitt að halda henni við efnið þegar hinar dæturnar á heimilinu eru ekki að æfa sig.

„Maður er að reyna sjálfur að halda áhuganum við hjá krökkunum en það gengur mjög dapurlega og maður finnur að áhuginn er að minnka,“ segir Guðríður en bætir við að þó foreldrar reyni að halda börnum sínum við efnið sé hætta á að þau séu látin æfa einhverja vitleysu.

„Það er mjög vont því þá fer svo langur tími í að vinda ofan af einhverju slíku þegar þetta verkfall leysist.“

Áhuginn á náminu dofnar

„Það er ákveðinn taktur í heimilislífinu yfir veturinn og nú er hann eiginlega rofinn. Það er búið að taka út þarna lykilþátt, tónlistarnámið, og þetta aðhald sem kemur til þegar farið er til kennarans reglulega,“ segir Guðríður. Hún segir það vera mikla hvatningu fyrir börn í tónlistarnámi að æfa sig áður en farið er í tíma til tónlistarkennarans.

„Aðalvandamálið finnst mér þó vera að maður finnur hvernig áhuginn dofnar aðeins,“ segir Guðríður sem óttast að ef verkfall tónlistarkennara dragist á langinn komi fjöldi barna til með að hætta í tónlistarnámi.

„Ótrúlegt að það sé ekki búið að ganga frá samningum“

Guðríður segir það óskiljanlegt hvernig búið sé að taka hluta af kennurum úr Kennarasambandi Íslands og setja þá undir annan hátt.

„Að menn komist upp með að einhver hópur þar inni sé ekki við sama borð og aðrir kennarar,“ segir Guðríður og bendir á að bak við nám hjá tónlistarkennara þarf hann sjálfur að fara í gegnum tónlistarnám og fara í kennsluréttindanám til viðbótar.

„Þannig það er ekki eins og tónlistarkennarar eru minna menntaðir heldur en grunnskólakennarar. Það er meira að segja þannig að þeir eru kannski búnir að vera í tónlistarnámi í 10-15 ár og eru svo að bæta við sig kennsluréttindum. Fyrir leikmann eins og mig finnst mér ótrúlegt að það sé ekki búið að ganga frá samningum,“ segir Guðríður.

Fundað var síðast hjá ríkissáttasemjara í deilunni á mánudaginn síðasta en án árangurs. Jón Hrólfur Sigurjónsson, varaformaður Félags tónlistarskólakennara, segir að ekki sé búið að boða til næsta fundar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert