Mörg efnilegustu börn og ungmenni landsins í skák eru skráð til leiks á MS-afmælismóti Jónasar Hallgrímssonar í ráðhúsi Reykjavíkur í dag kl. 14. Jónas fæddist 16. nóvember 1807 og því eru í dag 207 ár frá fæðingu þjóðskáldsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Taflfélag Reykjavíkur og Hrókurinn standa saman að mótinu, enda hafa skák og skáldskapur átt samleið á Íslandi frá öndverðu. Heiðursgestir við setningu mótsins eru frú Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, og Friðrik Ólafsson stórmeistari, fv. forseti FIDE. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra flytur setningarávarp og Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, leikur fyrsta leikinn.
MS-afmælismót Jónasar Hallgrímssonar er ætlað börnum á grunnskólaaldri og er gert ráð fyrir 64 keppendum og er þegar fullbókað á mótið. Tefldar verða sjö umferðir með sjö mínútna umhugsunatíma.
Veitt eru verðlaun og viðurkenningar fyrir bestan árangur í þremur aldursflokkum: 1.-3. bekk, 4.-6. bekk og 7.-10. bekk.