Einn sá indælasti í Evrópu

Náttúran hefur vissulega fengið að setja mark sitt á Hólavallakirkjugarð.
Náttúran hefur vissulega fengið að setja mark sitt á Hólavallakirkjugarð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hólavallakirkjugarður er einn af indælli kirkjugörðum Evrópu, ef marka má Jeanine Barone, sem skrifar fyrir National Geographic. Hún segir m.a. að kirkjugarðurinn sé vitnisburður um ástarsamband Íslendinga við náttúruna, en hluti garðveggsins sé þakinn fágætum mosa og innan hans standi kræklótt tré vörð.

„Birki og reynir eru ríkjandi en lerki, greni, víðir og ösp veita einnig skugga, í skógi sem hlýtur að vera einn sá þéttvaxnasti í höfuðborg. Loftið er fullt af lífi flögrandi fugla - glókolla, svartfugla, skógarþrasta og annarra, og skapar friðsælt afdrep frá iðu þéttbýlisins,“ segir Jeanine Barone, en grein hennar birtist undir liðnum Beyond the Guidebook - Where the locals go, á vefsvæði National Geographic.

Þegar jólahátíðin gengur í garð lýsa kertaljós á leiðum genginna ástvina upp garðinn, að sögn Barone, sem hefur það einnig fyrir víst að meðal áhugaverðra leiða í garðinum séu leiði Guðrúnar Oddsdóttur, sem var fyrst jarðsett í Hólavallakirkjugarði, og leiði Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals listmálara.

Grein Jeanine Barone um indæla kirkjugarða í Evrópu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert