Frosti styður ekki hækkun matarskatts

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segist ekki geta stutt hækkun á matarskatti eins og staðan er í dag. Mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið nægi ekki til að tryggja að skattabreytingarnar leiði til kjarabóta fyrir alla í samfélaginu.

Þetta sagði Frosti í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Frosti sagðist þó viss um að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði lagt tillögurnar fram með það að markmiði að heildaráhrifin yrðu jákvæð fyrir alla.

Viðbót 15:46

Frosti hefur nú sett pistil inn á Facebook-síðu sína þar sem hann gerir frekari grein fyrir afstöðu sinni. Þar segist hann hafa frá upphafi sett þann fyrirvara við hækkun matarskatts að mótvægisaðgerðir verði að duga til þess að heimilin verði í betri stöðu á eftir.

Segir hann að þótt mótvægisaðgerðirnar skili heimilunum meiri heildartekjum en sem nemur hækkun matarskatts, þá eru einhverjir hópar sem lenda í hækkun á mat en njóta ekki þeirra liða sem lækka. Bregðast þurfi við því,“ segir Frosti og nefnir sem dæmi hugmynd um að færa lyfseðilsskyld lyf úr efra þrepi í það neðra, sem myndi að sögn Frosta gagnast öldruðum, öryrkjum og sjúklingum. „Fjármagna má það með því að færa sælgæti og gos í efra þrep sem enginn þarf nauðsynlega á að halda,“ skrifar Frosti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert