Boðað hefur verið til samstöðumótmæla gegn ríkisstjórn Íslands fyrir framan íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn á morgun kl. 17 að dönskum tíma. Um 60 manns hafa boðað komu sína á mótmælin á Facebook.
„Við, Íslendingar í Kaupmannahöfn, viljum með þessu sýna samstöðu með þeim mótmælum sem átt hafa sér stað undanfarið og fyrirhuguð eru næstu mánudaga á Austurvelli, sem og minna ríkisstjórn Íslands á, að við erum mörg sem fylgjumst með um allan heim og erum óánægð með stefnu stjórnarinnar,“ segir í fréttatilkynningu.
„Þó að við séum ekki á landinu eins og er þykir okkur vænt um íslenskt samfélag og finnst að fólkið okkar eigi betra skilið en fjársvelt heilbrigðis- og menntakerfi, hækkaða matarskatta á meðan lúxusskattar á flatskjái lækka, að það sé valtað yfir menningarlíf og náttúruna og að ríkisstjórn Íslands komi fram við þjóð sína af hroka.“
Líkt og áður hefur komið fram á mbl.is hefur verið boðað til mótmæla á Austurvelli á morgun.