Skurðlæknafélag Íslands mun hefja verkfallsaðgerðir á morgun og munu þær standa yfir fram á fimmtudag. Næsti fundur í kjaradeilunni er ekki boðaður fyrr en á miðvikudag.
Tæplega 90 læknar eru í félaginu og falla allar skipulagðar aðgerðir niður þá daga sem verkfallið stendur yfir. Aðeins bráðatilvikum verður sinnt þessa daga.
Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri á skurðlækningasviði Landspítalans segir skurðlækningasviðið vera það svið spítalans sem finnur hvað mest fyrir áhrifum verkfallsins. „Sumir unglæknarnir okkar eru í læknafélaginu, skurðlæknarnir eru í skurðlæknafélaginu og svo eru svæfingalæknarnir á aðgerðasviði, svo allir verkfallsliðir hafa áhrif á þá sem þurfa skurðaðgerðir. Þetta yfirtekur alla starfsemi.“
Þá segir hún heildaráhrif verkfallsins vera mjög umfangsmikil. „Þetta er eitt allsherjar ófremdarástand,“ segir hún. „Heildaráhrifin eru þau að fyrir hvern einasta dag sem ekki er unnið af fullu blasti þá lengjast biðlistarnir sem því nemur.“
Lilja segir það skapa gríðarlegt álag á bæði sjúklinga og starfsfólk að láta þetta ganga upp. „En fólk gerir það á eins ábyrgan hátt og það getur frá degi til dags.“ Þá segir hún afleiðingar verkfallsins vera miklar, og langan tíma muni taka að byggja kerfið upp að nýju.
Á vef Landspítalans er farið ítarlega yfir áhrif verkfallsins á deildir spítalans. Þar segir að helstu áhrif verkfalla á skurðlækningasviði séu eftirfarandi:
Eins og fram hefur komið fer Skurðlæknafélag Íslands fram á upp undir 100% hækkun á grunnlaunum nýútskrifaðra sérfræðinga í kjaraviðræðum við ríkið.
Félagið fer fram á að laun skurðlækna hér á landi verði svipuð og þau eru í nágrannalöndunum. Ekki er óalgengt að nýútskrifaður sérfræðingur í Svíþjóð fái 60 til 70 þúsund sænskar í laun á mánuði, en það er rétt rúm milljón í íslenskum krónum. Nýútskrifaður sérfræðingur á Íslandi er með um hálfa milljón í grunnlaun.