Ísland, ekki svo best í heimi?

Merki Reddit.
Merki Reddit. Mynd/Reddit

Mikil umræða hefur skapast á vefnum Reddit, þar sem notandinn askur vekur athygli á því að staðan á Íslandi er ekki sú sem margir virðast halda erlendis. Umræðuþráðurinn hleypur á hundruðum ummæla frá notendum mjög víða að úr heiminum.

askur gagnrýnir hina svokölluðu leiðréttingu, lekamálið, stöðuna á Landspítalanum, verkfall lækna, tónlistarkennara, háskólaprófessora, gjaldeyrishöftin og endurnýjun bílaflota ráðherra á meðan hann segir skorið niður á mörgum vígstöðvum.

Hann segist mjög reiður, sem liti skoðanir hans á ástandinu. Þá vekur hann athygli á því að hann fái greitt í evrum og sé töluvert yfir meðaltekjum á Íslandi og starfi sem forritari. Þrátt fyrir að geta farið af landi brott auðveldlega, þá haldi vinir og fjölskylda honum á landinu.

Reddit-notendur virðast ekki hafa haft hugmynd um stöðu þessara mála hér á landi. Flestir telja að á Íslandi sé allt eins og það á að vera og ríki og þjóð með nóg af peningum milli handanna. Þeir gagnrýna meðal annars fjölmiðla, hérlenda sem erlenda, fyrir að miðla þessum hliðum íslensks samfélags ekki með nægilega góðum hætti yfir hafið.

Notandinn sebastiankirk stígur til að mynda fram í dagsljósið og segist starfa fyrir stórt danskt dagblað, en hafi ekki hugmynd um þessi atriði sem askur bendir á. Í framhaldi af því er vakin athygli á að umfjöllun víða erlendis um eftirköst bankahrunsins 2008 sé á þann veg að íslensk stjórnvöld hafi snúið niður stóra erlenda kröfuhafa og að Ísland hafi komið betur út úr kreppunni en flestar aðrar þjóðir. 

Þráðurinn er eins og segir mjög umfangsmikill, og er áhugasömum bent á að hægt er að skoða hann hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert