Líst ekki á blikuna á Íslandi

Frá mótmælunum á Austurvelli síðasta mánudag.
Frá mótmælunum á Austurvelli síðasta mánudag. mbl.is/Júlíus

Íslend­ing­ar bú­sett­ir í Dan­mörku koma sam­an við sendi­ráð Íslands í Kaup­manna­höfn í dag til að sýna sam­stöðu með mót­mæl­end­um á Aust­ur­velli. Að sögn Sól­eyj­ar Mist­ar Hjálm­ars­dótt­ur, eins skipu­leggj­endanna, líst fólki þar úti ekki á blik­una heima á Íslandi. Sjálf vill hún ekki flytja heim í nú­ver­andi ástand.

„Ég hef fylgst rosa­lega mikið með stöðunni á Íslandi. Ég hef búið í Dan­mörku í næst­um því tíu ár en ég fylg­ist mikið með stjórn­mál­um og öll mín fjöl­skylda býr á Íslandi. Mér þykir rosa­lega vænt um þetta land og mig varðar mikið hvað er að ger­ast í sam­fé­lag­inu. Ég er búin að fylgj­ast með mót­mæl­un­um tveim­ur sem hafa verið og mig langaði að taka þátt en gat ekki gert það nema óbeint. Ég hugsaði að það hljóti að vera fleiri sem hafa áhuga á að taka þátt. Það reynd­ist rétt. Það er bú­inn að vera mik­ill áhugi og mikið af fólki sem finnst þetta frá­bært,“ seg­ir Sól­ey Mist um sam­stöðumót­mæl­in í dag.

Nú fyr­ir há­degi höfðu 85 manns boðað komu sína á mót­mæl­in við sendi­ráðið við Strand­götu sem fara fram kl. 17 að dönsk­um tíma, eða kl. 16 að ís­lensk­um tíma. Í mót­mæla­boðunum á Face­book er ástandið á Íslandi sagt væg­ar sagt slæmt. Heil­brigðis- og mennta­kerf­in séu al­gjör­lega fjár­svelt, mat­ar­skatt­ur hækki á meðan „lúx­us­skatt­ur“ á flat­skjái lækki, valtað sé yfir nátt­úr­una og rík­is­stjórn Íslands hafi komið ein­stak­lega illa fram.

„Þó við séum ekki á land­inu þá er fólkið okk­ar á land­inu og við vilj­um breyt­ing­ar. Við vilj­um að það sé komið vel fram við þjóðina. Þegar maður ber sam­an Dan­mörku og Ísland er þetta varla sam­bæri­legt,“ seg­ir Sól­ey Mist.

Sjá að kerfið virk­ar bet­ur úti

Sjálf seg­ir Sól­ey Mist að sem náms­manni séu mennta­mál henni of­ar­lega í huga. Verk­föll hjá tón­list­ar­kenn­ur­um, há­skóla­kenn­ur­um og grunn­skóla­kenn­ur­um hljómi ekki vel.

„Að heyra hvernig farið er með náms­menn á Íslandi er fá­rán­legt. Sér­stak­lega þar sem ég er í svo mik­illi for­rétt­inda­stöðu. Ég fæ ókeyp­is há­skóla­nám og náms­styrk. Það er kannski ekki raun­hæft að hafa sama kerfi á Íslandi en ég hugsa að það sé alla­veg­ana hægt að gera bet­ur,“ seg­ir Sól­ey Mist en hún lær­ir mann­lega upp­lýs­inga­fræði og sam­skipti við Ála­borg­ar­há­skóla í Kaup­manna­höfn. 

Þá eru heil­brigðismál­in áhyggju­efni Íslend­inga í Dan­mörku. Lækn­ar standa í verk­fallsaðgerðum og frétt­ir ber­ast stöðugt af hrak­andi aðbúnaði á Land­spít­al­an­um.

„Öll mín fjöl­skylda býr á Íslandi og sem bet­ur fer er eng­inn veik­ur þannig að ég hef ekki þurft að pæla mikið í því. Maður vill bara að það sé hugsað vel um fólkið manns, að það geti kom­ist til lækna og það sé til nóg af tækj­um og tól­um. Sömu­leiðis að fólk þurfi að borga mikið sjálft fyr­ir þjón­ust­una. Það er fátt öm­ur­legra fyr­ir fjöl­skyld­ur en að þurfa að standa í mikl­um veik­ind­um. Að ofan á það komi fjár­hags­á­hyggj­ur finnst mér ótrú­legt. Hér þarf maður ekki að borga krónu þegar maður fer til lækn­is. Það er líka mik­il for­rétt­ind­astaða. Skandína­víska mód­elið er ekki full­komið en það er al­ger­lega það sem skil­ar mestu til allra,“ seg­ir Sól­ey Mist.

Mikið hef­ur verið talað um ábyrgð ráðherra og óheiðarleika í póli­tík, meðal ann­ars í tengsl­um við leka­málið og fram­göngu Hönnu Birni Kristjáns­dótt­ur, inn­an­rík­is­ráðherra. Stjórn­mála­menn­ing­in er tölu­vert frá­brugðin í Dan­mörku hvað þetta varðar.

„Hér segja ráðherr­ar af sér ef þeir gera eitt­hvað slæmt og þeir þurfa ekki einu sinni að vera beðnir um það. Það er bara gert að sjálfu sér. Það virðist vera meiri heiðarleiki og ábyrgð hér úti,“ seg­ir Sól­ey Mist.

All­ur gang­ur er á hvort að fólk úti ætli að flytja aft­ur heim til Íslands, til dæm­is þeir sem eru í námi þar. Sól­ey Mist skynj­ar sjálf að marg­ir hafi ekki hug á því. Þeir sjái hvað kerfið virki bet­ur í Dan­mörku.

„Það líst eng­um á blik­una sem ég hef talað við. Ég veit ekki al­veg hvað framtíðin ber í skauti sér, það verður svo­lítið að koma í ljós. Ég held að ég vilji ekki flytja heim á meðan staðan er svona,“ seg­ir hún.

Face­book-síða sam­stöðumót­mæl­anna í Kaup­manna­höfn

Sóley Mist Hjálmarsdóttir, nemi í mannlegri upplýsingafræði og samskiptum og …
Sól­ey Mist Hjálm­ars­dótt­ir, nemi í mann­legri upp­lýs­inga­fræði og sam­skipt­um og einn skipu­leggj­enda sam­stöðumót­mæl­anna í Kaup­manna­höfn.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka