Íslendingar búsettir í Danmörku koma saman við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn í dag til að sýna samstöðu með mótmælendum á Austurvelli. Að sögn Sóleyjar Mistar Hjálmarsdóttur, eins skipuleggjendanna, líst fólki þar úti ekki á blikuna heima á Íslandi. Sjálf vill hún ekki flytja heim í núverandi ástand.
„Ég hef fylgst rosalega mikið með stöðunni á Íslandi. Ég hef búið í Danmörku í næstum því tíu ár en ég fylgist mikið með stjórnmálum og öll mín fjölskylda býr á Íslandi. Mér þykir rosalega vænt um þetta land og mig varðar mikið hvað er að gerast í samfélaginu. Ég er búin að fylgjast með mótmælunum tveimur sem hafa verið og mig langaði að taka þátt en gat ekki gert það nema óbeint. Ég hugsaði að það hljóti að vera fleiri sem hafa áhuga á að taka þátt. Það reyndist rétt. Það er búinn að vera mikill áhugi og mikið af fólki sem finnst þetta frábært,“ segir Sóley Mist um samstöðumótmælin í dag.
Nú fyrir hádegi höfðu 85 manns boðað komu sína á mótmælin við sendiráðið við Strandgötu sem fara fram kl. 17 að dönskum tíma, eða kl. 16 að íslenskum tíma. Í mótmælaboðunum á Facebook er ástandið á Íslandi sagt vægar sagt slæmt. Heilbrigðis- og menntakerfin séu algjörlega fjársvelt, matarskattur hækki á meðan „lúxusskattur“ á flatskjái lækki, valtað sé yfir náttúruna og ríkisstjórn Íslands hafi komið einstaklega illa fram.
„Þó við séum ekki á landinu þá er fólkið okkar á landinu og við viljum breytingar. Við viljum að það sé komið vel fram við þjóðina. Þegar maður ber saman Danmörku og Ísland er þetta varla sambærilegt,“ segir Sóley Mist.
Sjálf segir Sóley Mist að sem námsmanni séu menntamál henni ofarlega í huga. Verkföll hjá tónlistarkennurum, háskólakennurum og grunnskólakennurum hljómi ekki vel.
„Að heyra hvernig farið er með námsmenn á Íslandi er fáránlegt. Sérstaklega þar sem ég er í svo mikilli forréttindastöðu. Ég fæ ókeypis háskólanám og námsstyrk. Það er kannski ekki raunhæft að hafa sama kerfi á Íslandi en ég hugsa að það sé allavegana hægt að gera betur,“ segir Sóley Mist en hún lærir mannlega upplýsingafræði og samskipti við Álaborgarháskóla í Kaupmannahöfn.
Þá eru heilbrigðismálin áhyggjuefni Íslendinga í Danmörku. Læknar standa í verkfallsaðgerðum og fréttir berast stöðugt af hrakandi aðbúnaði á Landspítalanum.
„Öll mín fjölskylda býr á Íslandi og sem betur fer er enginn veikur þannig að ég hef ekki þurft að pæla mikið í því. Maður vill bara að það sé hugsað vel um fólkið manns, að það geti komist til lækna og það sé til nóg af tækjum og tólum. Sömuleiðis að fólk þurfi að borga mikið sjálft fyrir þjónustuna. Það er fátt ömurlegra fyrir fjölskyldur en að þurfa að standa í miklum veikindum. Að ofan á það komi fjárhagsáhyggjur finnst mér ótrúlegt. Hér þarf maður ekki að borga krónu þegar maður fer til læknis. Það er líka mikil forréttindastaða. Skandínavíska módelið er ekki fullkomið en það er algerlega það sem skilar mestu til allra,“ segir Sóley Mist.
Mikið hefur verið talað um ábyrgð ráðherra og óheiðarleika í pólitík, meðal annars í tengslum við lekamálið og framgöngu Hönnu Birni Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra. Stjórnmálamenningin er töluvert frábrugðin í Danmörku hvað þetta varðar.
„Hér segja ráðherrar af sér ef þeir gera eitthvað slæmt og þeir þurfa ekki einu sinni að vera beðnir um það. Það er bara gert að sjálfu sér. Það virðist vera meiri heiðarleiki og ábyrgð hér úti,“ segir Sóley Mist.
Allur gangur er á hvort að fólk úti ætli að flytja aftur heim til Íslands, til dæmis þeir sem eru í námi þar. Sóley Mist skynjar sjálf að margir hafi ekki hug á því. Þeir sjái hvað kerfið virki betur í Danmörku.
„Það líst engum á blikuna sem ég hef talað við. Ég veit ekki alveg hvað framtíðin ber í skauti sér, það verður svolítið að koma í ljós. Ég held að ég vilji ekki flytja heim á meðan staðan er svona,“ segir hún.