„Ég held að staðan sé einfaldlega sú að hrefnukjöt er mjög eftirsótt á markaði og satt best að segja hefur innanlandsframleiðslan hvergi nærri annað eftirspurn. Þeir sem hafa stundað þessar veiðar hafa getað selt allt sitt kjöt á sumarmarkaði um leið og vinnslan á sér stað,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrispurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
Steinunni spurði ráðherrann út í áform Félags hrefnuveiðimanna um að flytja inn hrefnukjöt frá Noregi þar sem ekki hafi veiðst nógu mikið á vertíðinni hér á landi í sumar. Spurði hún hvort Sigurður teldi rétt að endurskoða hrefnikvótann í þessu ljósi og hvort honum þætti eðlilegt að flutt væri inn hrefnukjöt frá Noregi. Ráðherrann sagðist ekkert sjá athugavert við það að flytja inn hrefnukjöt þegar brestur yrði á og ekki tækist að veiða nægjanlega mörg dýr til þess að fullnægja innlendri eftirspurn.
„Háttvirtur þingmaður spyr: Eigum við að flytja inn hvalkjöt? Ég get spurt á móti: Af hverju ekki? Íslendingar eru vanir að neyta hrefnukjöts og Norðmenn og Íslendingar veiða hrefnu og reyndar fleiri, Grænlendingar. Þetta er mjög eðlilegt lífsmunstur og neyslumunstur á norðlægum slóðum. Ég tel ekkert athugavert við það, satt best að segja,“ sagði Sigurður ennfremur. Steinunn svaraði því til að sumar tegundir hvala væru í útrýmingarhættu og hvalveiðar væru ekki hátt skrifaðar meðal margra þjóða.
„Hér er sagt að við ættum hvorki að stunda veiðar né flytja inn kjöt frá Noregi úr stofnum sem eru mjög stórir og eru nýttir með sjálfbærum og ábyrgum hætti vegna þess að einhverjar aðrar tegundir hvala séu í útrýmingarhættu einhvers staðar annars staðar í heiminum. Ég get ekki fallist á þau rök. Það mundi hreint út sagt kollvarpa öllu því sem við þjóðir við norðanvert Atlantshaf stöndum fyrir,“ svaraði Sigurður.