Svigrúm fyrir meira en leiðréttinguna

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjármunum sem varið verður til skuldaleiðréttingaraðgerða ríkisstjórnarinnar verða til þess að lækka skuldir heimilanna sem er sérstakt fagnaðarefni. Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um skuldaleiðréttinguna og stöðu ríkissjóðs. Ekki síst í ljósi þess að sögulega lág einkaneysla í landinu væri meðal annars tilkomin vegna þess að heimilin hafi átt erfitt með að ná endum saman.

Málshefjandi var Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sem spurði að því hvort allt svigrúm sem yrði í rekstri ríkissjóðs yrði notuð til þess að fjármagna skuldaleiðréttinguna í stað þess til að mynda að greiða niður skuldir hins opinbera. Þar á meðal í tengslum við fyrirhuguð afnám fjármagnshaftanna. Þetta þætti honum skrítið í ljósi þess að ríkið, stofnanir þess og innviðir hefðu tekið á sig gríðarlegt högg við fall bankanna. Vegakerfinu væri ekki viðhaldið sem skyldi, þörf væri á nýju sjúkrahúsi og fjárfestingu í menntakerfinu. En ekki væri hægt að fara í þau verkefni þar sem fjármunirnir færu í leiðréttinguna.

Bjarni sagði það alls ekki svo að allt svigrúm ríkissjóðs yrði nýtt í skuldaleiðréttinguna. Fjárlög næstu árs gerðu þegar ráð fyrir fjármögnum helmings aðgerðanna. Engu að síður yrði rúmlega 40 milljarða króna afgangur á ríkissjóði á þessu ári. Þegar tekið væri inn í myndina að afgangur yrði á næsta ári þrátt fyrir að fjármunir væru settir í leiðréttinguna blasti við hverjum sem vildi sjá að svigrúm væri til að gera meira en það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert