Orkustofnun telur að ekki sé heimild í lögum til að láta verkefnisstjórn um 3. áfanga rammaáætlunar fjalla um vindorkuver, sjávarfallavirkjanir og aðra óhefðbundna virkjanakosti.
Vilji Alþingis um að láta þessar virkjanir fara í rammaáætlun hafi ekki náð fram í lagatextanum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Orkustofnun hefur kallað eftir stöðluðum upplýsingum frá orkufyrirtækjum um tilhögun virkjanakosta sem óskað hefur verið eftir að fari í mat verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Nú fara 82 virkjanakostir til mats, heldur færri en reiknað var með í mars. Meðal annars falla niður fjórar vindorkustöðvar.