Dýrara að hafa fólk veikt í vinnu

Margir mæta veikir eða ekki fullfrískir í vinnuna.
Margir mæta veikir eða ekki fullfrískir í vinnuna. Sverrir Vilhelmsson

Kostnaðarsamara getur verið fyrir fyrirtæki að ýta undir að starfsfólk mæti þegar það er ekki fullfrískt til vinnu en að bregðast við veikindafjarvistum. Ýmsar ástæður eru fyrir því að fólk mætir í vinnuna þrátt fyrir að vera veikt en sú algengasta er að það vill ekki auka álag á samstarfsmenn sína.

Þetta kom fram í máli Jónínu Waagfjörð, deildarstjóra hjá VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs, á opnum fundi Bandalags háskólamanna (BHM) um veikindavinnu starfsmanna undir yfirskriftinni „Eru veikindadagar vinnudagar?“.

Rannsóknir víða um lönd sýndu að allt frá 60-80% fólks á vinnumarkaði mætti til vinnu þrátt fyrir að vera veikt eða að minnsta kosti ekki fullfrískt. Könnun innan Evrópusambandsins benti til þess að þetta hlutfall væri 45% á meðal kvenna og 41% meðal karla.

Jónína sagði að margir vinnuveitendur reyndu að ná utan um kostnað við fjarvistir starfsmanna. Það gæti hins vegar verið dýrara að hafa fólk með skerta starfsgetu í vinnunni. Bresk rannsókn benti til að það væri 2-5 sinnum dýrara þar sem starfsfólkið skilar minni afköstum og meira álag er á aðra starfsmenn. Veikum starfsmönnum sé hættara við að gera mistök og að lenda í slysum. Í Bandaríkjunum hafi verið áætlað að veikindavinna starfsfólks kosti 180 milljarða dollara á ári en veikindafjarvistir 118 milljarða dollara.

Þá hafi það að mæta veikur í vinnuna kostnað í för með sér fyrir einstaklinginn. Honum sé hættara við heilsufarsvandræðum í framtíðinni, kulnun í starfi vegna aukins álags og depurð.

Rannsóknir frá Svíþjóð og Noregi sýni að algengasta ástæða fólks fyrir að mæta með skerta starfsgetu til vinnu er sú að það vill ekki auka álag á samstarfsfólk sitt. Annað spilaði þó inn í. Í Svíþjóð mættu til dæmis fleiri til vinnu veikir af fjárhagsástæðum en í Noregi en í Svíþjóð er ekki greitt fyrir fyrsta dag veikinda og svo aðeins 80% af launum eftir visst langan tíma.

Jónína sagði að sambærileg rannsókn hefði ekki verið gerð á Íslandi en ekki sé ólíklegt að ástæðurnar séu af svipuðum meiði hér.

Lítið um mælingar og aðgerðir

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, sagði upplýsingar um veikindafjarvistir og veikindavinnu Íslendinga af skornum skammti. Mikið sé um bókanir um heilsufar í samningum en lítið um mælingar og aðgerðir. Rannsóknir innan BHM bendi hins vegar til að rúm 44% félagsmanna hafi mætt veikir til vinnu og 40% hafi unnið heima þegar þeir voru veikir.

Fylgni er á milli aldur fólks og hversu líklegt það er til að mæta til vinnu veikt. Þannig hafði yfir helmingur yngsta aldurshópsins mætt veikur í vinnu en hlutfallið lækkaði eftir hækkandi aldri. Þá hafi hlutir eins og langur vinnutími, mannaforráð og fjárhagsleg ábyrgð í vinnunni fylgni við að fólk mæti veikt.

Guðlaug sagði fulla ástæðu til að rannsaka nánar hversu oft fólk mætti veikt til vinnu og hvers vegna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert