Gengi bandaríkjadals gagnvart krónu hefur styrkst umtalsvert á síðustu vikum og kostar dalurinn nú um tíu krónum meira en hann gerði í byrjun ágústmánaðar.
Kemur þetta fram í fréttaskýringu um áhrif gengisbreytinganna á verðlag og verðbólgu á Íslandi í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir Yngvi Harðarson, hagfræðingur hjá Analytica, meginskýringuna á styrkingu bandaríkjadals gagnvart krónu vera þá að dalurinn hafi styrkst gagnvart helstu myntum, t.d. evru og jeni. Verðbólguáhrif almennrar hækkunar dollarans séu lítil ef nokkur. Raunar fari gjarnan saman lækkun hrávöruverðs og hækkun dollars. Nú séu margar hrávörur að lækka mikið og langtum meira en sem nemur hækkun dollars, s.s. hráolía og flugvélaeldsneyti.