HÆTTA! við slysagjá

Róbert og Ingólfur við viðvörunarmerkið sem myndlistamaðurinn Árni Páll Jóhannsson …
Róbert og Ingólfur við viðvörunarmerkið sem myndlistamaðurinn Árni Páll Jóhannsson hannaði.

Vélsleðamennirnir Róbert Marshall, sem er einnig þingmaður Bjartrar framtíðar, og Ingólfur Eldjárn hafa komið fyrir þriggja metra háum viðvörunarþríhyrningi við gjá suður af Skjaldbreið þar sem Róbert stórslasaðist síðasta vetur. Á þrífætinum er áletrunin HÆTTA! ásamt með GPS hnitum staðarins.

Fram kemur í tilkynningu, að myndlistamaðurinn Árni Páll Jóhannsson hafi hannað viðvörunarmerkið sem er með vindhana efst en það er boltað í bergið við gjána. 

„Það var í mars síðastliðnum sem þeir félagar fóru í vélsleðaferð og lá leið þeirra  m.a. um fjallið Skjaldbreið. Leiðangurinn fékk snöggan og vondan endi  þegar sleði Róberts steyptist ofan í jarðfall mikið við rætur fjallsins. Hann hlaut umtalsverða áverka en slapp þó með ólíkindum vel miðað við aðstæður og hefur að fullu náð fyrri styrk og getu.

Fljótlega eftir slysið kom upp sú hugmynd í samtölum þeirra að merkja þyrfti þennan stað öðrum til varnaðar, en þarna var áður viðvörunarmerki sem hafa veðrast burt. Það er von þeirra að þetta megi verða til að gera ferðir þeirra sem ferðast um svæðið öruggari,“ segir í tilkynningu sem Róbert og Ingólfur hafa sent á fjölmiðla.

Þar kemur ennfremur fram, að tryggingafélögin TM, Sjóvá, VÍS, og Vörður hafi styrkt framtakið, ásamt Landsambandi Vélsleðamanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert