Sjávarútvegsráðherra kynnti væntanlegt kvótafrumvarp fyrir þingmönnum stjórnarflokkana á trúnaðarfundi í kvöld. Búast má við umtalsverðum breytingum á gildandi fiskveiðistjórnunarkerfi og veiðigjöldum nái frumvarið fram að ganga, að því er fram kemur á vef RÚV.
RÚV hefur heimildir fyrir því að settar verði reglur um viðskipti með kvóta, gert sé ráð fyrir kvótaþingi og að 5,3% heildarkvóta verði sett í sérstaka potta fyrir byggðakvóta, strandveiðar og leigukvóta.
Ennfremur segir, að gert sé ráð fyrir að gerðir verði nýtingasamningar um aflaheimildir til 23 ára og reynt verður að einfalda mjög álagningu veiðigjalda frá því sem nú er. Ennfremur segir, að reynt verði að innheimta veiðigjöld sem fyrst eftir að afli komi úr sjó. Gert sé ráð fyrir lágmarksveiðigjöldum til að standa undir þjónustu hins opinbera við sjávarútveginn
Tekið er fram að frumvarpið geti þó enn tekið breytingum.