Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá máli Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, á hendur íslenska ríkinu. Fram kemur á vef Landslaga, að málinu hafi verið vísað frá sökum þess að úrræði fyrir íslenskum dómstólum hafi á þessu stigi ekki verið tæmd.
Fram kemur, að Ingólfur hafi kært íslenska ríkið vegna meintra brota gegn rétti hans til að velja sér verjanda eftir að Hæstiréttur hafði staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að afturkalla skipun Jóhannesar Bjarna Björnssonar hrl, verjanda Ingólfs. Hafi afturköllunin verið studd þeim rökum að ekki væri útilokað að verjandinn yrði kvaddur til sem vitni í málinu þar sem ákæruvaldið hafði lagt fram í málinu endurrit af hleruðu símtali milli verjandans og annars sakbornings í málinu.
„Í bréfi um niðurstöðu MDE dags. 13. nóvember segir að MDE hafi komist að þeirri niðurstöðu að þar sem málaferli þau sem kæran er sprottin af séu enn í gangi fyrir íslenskum dómstólum teljist innlend úrræði ekki tæmd líkt og áskilið er í 1. mgr. 35. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Ákvörðun þessi er endanleg hvað varðar þá kæru sem send var MDE en sérstaklega er tekið fram í bréfi dómstólsins að unnt séð senda nýja kæru þegar málsmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Ingólfi Helgasyni hafi verið lokið hér á landi,“ segir í tilkynningu á vef Landslaga.
Ingólfur kærir til Mannréttindadómstóls.