„Mér er vissulega misboðið vegna þessarar auglýsingar, þessa nýmælis í íslensku stjórnmálalífi. Ég get ekki skilið hvaða hvatir liggja að baki því að Öryrkjabandalagið eyði milljónatugum í auglýsingu sem fjallar ómálefnalega og á einstæðan hátt og neikvæðan um mína persónu.“
Þetta sagði Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag vegna auglýsingar sem birt var á dögunum á vegum Öryrkjabandalags Íslands þar sem bæði hann og Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, komu við sögu. Pétur sagði markmið auglýsingarinnar að sverta hann og Vigdísi.
„Þau nota til þess milljónatugi. Auglýsingin um mig var í engu málefnaleg heldur snerist gegn persónu minni. Það sæmir ekki Öryrkjabandalaginu að nota sér erfiðleika fólks í veikindum, klippa í sundur setningar og nota myndskeið án leyfis til að klekkja á fólki, hafa af því æruna og vega að trúverðugleika þess,“ sagði hann og bætti við að hann kveinkaði sér ekki undan málefnalegri gagnrýni.
„Ég kvarta ekki undan málefnalegri gagnrýni en ekkert er málefnalegt við þessa auglýsingu. Ég spyr háttvirta þingmenn: Eru þetta vinnubrögð sem við viljum sjá, að félagasamtök noti milljónir til að sverta þingmenn?“