Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar skorar á Reykjavíkurborg að endurskoða nú þegar samþykktir sínar um Hlíðarendasvæðið með það að markmiði að byggðin og neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar eigi samleið. Kemur þetta fram í bókun sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar.
Í lok bókunarinnar kemur fram að þar sem Reykjavíkurflugvöllur er lífsnauðsynleg tenging landsbyggðarinnar við höfuðborg sína komi það ekki á óvart að Alþingi láti málið til sín taka, þegar sérhagsmunir gangi fyrir almannahagsmunum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar í bæjarstjórn vildu þetta ákvæði út og greiddu atkvæði á móti bókuninni í heild þegar átta bæjarfulltrúar höfnuðu því. Njáll Trausti Friðbertsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lítur á þessa samþykkt sem stuðning við inngrip Alþingis í skipulag flugvallarsvæðisins.