„Þetta var alvarleg bilun“

Landspítali háskólasjúkrahús Í Fossvogi.
Landspítali háskólasjúkrahús Í Fossvogi. mbl.is/Ómar

Alvarleg bilun sem varð í tölvubúnaði Landspítalans síðdegis olli mikilli truflun á starfsemi sjúkrahússins. „Við vitum ekki til þess að þetta hafi valdið neinum skaðaatvikum, en það er kannski fullt snemmt að segja [til um það],“ segir Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans og staðgengill forstjóra.

Bilunin varð um kl. 16 í dag og hafði hún áhrif á öll tölvukerfi spítalans, þar með talin klínísk kerfi þar sem skráðar eru upplýsingar um sjúklinga. Um eina og hálfa klukkustund tók að komast fyrir bilunina og koma tölvukerfunum aftur í gang.

Mjög háð tækninni

„Við getum rekið spítalann - en náttúrulega ekki á eðlilegan hátt - fólk tekur upp blöðin og við getum keyrt gjörgæsluna og bráðamóttökuna. Og viðbragðsáætlun okkar, þá er ég ekki að tala um tæknilega séð heldur um starfsemina, hún gerir ráð fyrir að við getum rekið spítalann í sólarhring. Það þýðir ekki að það verði kaos og truflun, en við lifum það af,“ segir Jón. Aðspurður segir hann eðlilega mjög vont að lenda í þessari stöðu.

„Við erum rosalega háð þessari tækni, bara eins og flestir aðrir, þannig hefur þetta auðvitað áhrif á starfsemina,“ segir Jón aðspurður. Hann bendir á að starfsmenn biðji um rannsóknir með tölvukerfum, rannsóknarniðurstöður berist með tölvukerfum og sjúkraskrár séu skráðar í tölvukerfi, svo nokkur dæmi séu tekin.

„Við komumst af en auðvitað truflar það starfsemina.“

Bilanagreining hafin

Bilun varð í aðal diskastæðum spítalans sem hýsa gögn fyrir öll helstu tölvukerfin, sem þar með urðu óstarfhæf. Aðspurður segist Jón ekki hafa frekari upplýsingar um það að svo stöddu. „Þetta var alvarleg bilun en mönnum tókst að koma þessu aftur í gang,“ segir Jón.

Jón bendir á að tvær áætlanir séu virkjaðar þegar svona gerist. Í fyrsta lagi áætlun sem snýst um að tæknimenn komi kerfinu í lag og svo fari fram bilanagreining. Í öðru lagi er viðbragðsáætlun virkjuð sem snýr að sjúkrahúsastarfseminni, en ljóst sé að röskum sem þessi hægi á allri starfseminni. 

Aðspurður segir Jón að nákvæm greining á biluninni liggi ekki fyrir. Ljóst sé að hún geti tekið nokkra daga.

Reka hátt í 100 tölvukerfi

Spurður hvort bilunin hafi t.d. haft áhrif á aðgerðir eða fæðingar segir Jón: „Það er nú flest ekki háð svona bilununum, það er meira háð miðlægum kerfum. Til dæmis rannsóknarstofurnar þær keyra alveg á sér prógrammi. Blóðprufur fara inn í tækin og tækin koma með niðurstöður. Það sem truflast er að biðja um blóðprufurnar og fá svörin. Það er sá angi sem dettur út,“ segir Jón.

Spurður hvort hann muni eftir öðru eins atviki, segir Jón að truflanir hafi orðið á tölvubúnaði áður en hann man hins vegar ekki eftir bilun sem hafi komið upp jafn snögglega og varað jafn lengi og raun beri vitni.

„Við erum með hátt í 70-100 kerfi sem snúa að sjúklingum sem eru misstór, misumfangsmikil og mismikilvæg frá degi til dags. Sum kerfi eru mjög sérhæfð en önnur eru mjög almenns eðlis,“ segir hann.

Jón segir að stjórnendur spítalans muni fara yfir málið þegar niðurstaða bilanagreiningar liggur fyrir, m.a. til að skoða það sem betur megi fara. 

Tölvukerfi sjúkrahússins starfa nú með eðlilegum hætti að sögn Jóns.

Tölvukerfin óstarfhæf í 1½ tíma

Tölvukerfi Landspítalans hrundi

Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans og staðgengill …
Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans og staðgengill forstjóra. mbl.is/Eggert
Landspítalinn er háður tölvutækni eins og nær öll fyrirtæki og …
Landspítalinn er háður tölvutækni eins og nær öll fyrirtæki og stofnanir í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert