„Það skemmtilegasta er að sjá háhyrningana, hvali og upplifa náttúruna en það leiðinlegasta er sjóveikin; hún er ekki skemmtileg,“ segir Sol sem er níu ára og ranghvolfir augunum um leið.
Hún býr í seglskútu við Reykjavíkurhöfn ásamt foreldrum sínum, Jay og Natöshu, og systrum sínum tveimur, Lunu átta ára og Caribe tveggja og hálfs árs, næsti fjölskyldumeðlimur bætist við í mars. Fjölskyldan ætlar að hafa vetursetu við höfnina og halda siglingunni áfram til Evrópu í sumar.
Börnin skoppa um dekkið á skútunni og príla á milli báta af miklu öryggi, en skútan þeirra, Messenger, liggur að stærri bát við höfnina. Fjölskyldan, öll með tölu, er mikið siglingafólk. Það sýndu þau með siglingunni frá Kanada til landsins sem var jafnframt erfiðasta og lengsta siglingin þeirra til þessa; 14 dagar án þess að koma í land. Þau segja slíkt reyna á en stelpurnar hafi sofið stærstan hluta leiðarinnar.
Elstu stelpurnar tvær ganga í Austurbæjarskóla og líkar vel. Sú eldri var heima, örlítið lasin, þegar Morgunblaðið fékk að kíkja í heimsókn í skútuna. Sú yngsta rölti um í Frozen-náttfötum, lék sér með dúkkur og reyndi að halda uppi samræðum við blaðamann á spænsku og ensku til skiptis.
Sol segir skólann á Íslandi mun betri en þann sem hún sótti í Bandaríkjunum. „Þar þurfti maður að skrifa allt niður eftir því sem kennarinn skrifaði á töfluna. Maður lærir ekkert af því,“ segir hún ábúðarfull.
Leiðir þeirra hjóna lágu saman fyrir níu árum. Jay sem er frá Kaliforníu hafði gert upp bát og sigldi til Kostaríku, þar hitti hann Natöshu í heimalandi hennar. Eftir það hafa þau siglt um heiminn og stoppað í lengri eða skemmri tíma til að vinna, safna sér peningum og halda áfram að ferðast og kynnast fleiri ævintýrum.
„Hér erum við á besta stað í bænum, öll þjónusta er í göngufæri og við fáum menninguna beint í æð. Þannig er þetta við hverja höfn.“ Ljómi færist yfir andlit allra fjölskylumeðlima þegar sundlaugarnar ber á góma.
Ísland varð fyrir valinu því þau kynntust Íslendingnum Jóhanni Valdimarssyni, sem talaði svo vel um landið. „Við ákváðum að slá til og sjáum ekki eftir því.“ Þeim líkar dvölin vel en furða sig á hitanum en þau komu í október.
Natasha er ljósmyndari að mennt og með meistaragráðu í vídeólist frá háskóla í New York. Hægt er að fylgjast með fjölskyldunni á vefsíðunni familiacoconut.com.