„Ég verð að koma upp og segja frá þessu vegna þess að ég tel einsýnt að borgin ætlar með einhverjum ráðum að koma flugvellinum í burtu og það verður að stöðva,“ sagði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag.
Þar sakaði þingmaðurinn forystumenn Reykjavíkurborgar halda í sífellu áfram „að gera grunninn að Reykjavíkurflugvelli minni og verri. Það er að gera hann að verri valkosti sem nauðsynlegan innanlandsflugvöll en ella.“ Benti Höskuldur þar meðal annars á að forystumenn borgarinnar vísuðu ítrekað í samkomulög við ríkið sem ættu ekki við lengur. Til að mynda vegna þess að lagastoð skorti eða vegna þess að þau hefðu þegar verið margbrotin.