Byssumálið gæti tekið mánuði

Vopnaðir sérsveitarmenn lögreglunnar.
Vopnaðir sérsveitarmenn lögreglunnar. mbl.is/Rósa Braga

Óformlegar viðræður hafa átt sér stað við norska embættismenn um byssur sem Norðmenn sendu Landhelgisgæslunni en það gæti tekið vikur og jafnvel mánuði að ná niðurstöðu í málið. Byssurnar hafa enn ekki verið afgreiddar inn í landið og er lausn málsins sögð á algeru grunnstigi.

Tollstjóri innsiglaði vopnin í lok október á þeirri forsendu að ekki væri búið að greiða af þeim tilskilin gjöld og tolla. Um er að ræða 250 hríðskotabyssur af gerðinni MP5 sem komu til landsins með norskri herflutningavél í febrúar á þessu ári. Alls voru 150 byssur ætlaðar ríkislögreglustjóra, samkvæmt beiðni hans til norskra yfirvalda.

Deilt hefur verið um hvort um gjöf hafi verið að ræða eða viðskipti. Landhelgisgæslan heldur því fyrrnefnda fram en norsk yfirvöld segja að það standi til að senda íslenskum yfirvöldum reikning.

Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar sem leiðir viðræðurnar við norska embættismenn hafa óformlegar viðræður átt sér stað. Það gæti hins vegar tekið vikur og jafnvel mánuði að ná niðurstöðu.

„Eins og stendur er vinna við lausn málsins á algjöru grunnstigi og í raun ekkert frekar um það að segja umfram það sem áður hefur komið fram,“ segir í skriflegu svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn mbl.is.

Leita enn lausna um byssurnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert