Fleiri vilja halda í flugvöllinn

Þeim fækkar sem nota einkabílinn en fjölgar sem hjóla til …
Þeim fækkar sem nota einkabílinn en fjölgar sem hjóla til vinnu og vegna útréttinga. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ný viðhorfskönnun fyrir Vegagerðina, sem Land-ráð sf. framkvæmdi í samvinnu við MMR, sýnir breyttar ferðavenjur Íslendinga miðað við fyrri kannanir.

Þá hefur stuðningur við flugvöllinn í Vatnsmýri aukist miðað við könnun sem sömu aðilar gerðu síðast árið 2012. Um 62% svarenda voru nú ósammála því að flytja ætti flugvöllinn, hlutfallið var 58% síðast.

Notkun einkabílsins hefur dregist saman og fleiri ferðast sem farþegar í bíl. Talsvert hefur dregið úr innanlandsflugi og þeim hefur fjölgað á ný sem fljúga til útlanda. Stuðningur við miðstöð innanlandsflugs í Vatnsmýri hefur aukist. Ef færa ætti flugvöllinn vilja flestir að hann fari til Keflavíkur.

Ferðum fólks út fyrir búsetusvæði þess fækkaði í sumar, þær voru að jafnaði 11 talsins en 13-15 sumrin 2004, 2007 og 2010. Færri fóru akandi um á einkabílnum og notkun ferðavagna hefur minnkað frá 2007. Á höfuðborgarsvæðinu fór hlutfall einkabílsins minnkandi, var tæp 75% í sumar en var um 87% árið 2007. Um 8% fóru um á hjóli og 7,6% í strætó en í könnuninni 2010 notuðu 5% reiðhjólið og 4% strætisvagn, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.

Land-ráð spurði jafnframt hverjar væru mikilvægustu framkvæmdir í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Áður nefndu flestir stofnbrautakerfið en nú er mun ofar í huga fólks að bæta þjónustu Strætó og bæta hjóla- og gönguleiðir. Þá vilja fleiri en áður fara í undirbúning á léttlestakerfi. Fáir nefndu fjölgun bílastæða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka