„Hann mun upplifa sig heimskan“

Freyju var ráðlagt að hringja son sinn veikan inn á …
Freyju var ráðlagt að hringja son sinn veikan inn á prófadegi í Samræmdu prófunum svo hann myndi ekki „upplifa sig heimskan.“ Eyþór Árnason

„Í byrjun september 2012 fékk ég símtal sem ég bjóst aldrei við að fá.“ Svona byrjar pistill Freyju Búadóttur sem hún birti á bloggsíðu sinni í dag. Þar segir hún frá því þegar kennarar sonar hennar ráðlögðu henni að hringja hann veikan inn á prófadegi í samræmdu prófunum í 4. bekk „því þá þyrfti hann ekki að taka prófin og ekki væru lögð sjúkrapróf.“

Sonur Freyju er með ADHD og lesblindu og var því búið að sjá til þess að hann fengi lengri tíma, aukahjálp og sérstofu í prófunum. Hann féll ekki undir þau skilyrði sem gerð eru til að fá undanþágu frá prófunum, og hafði Freyja því ekki gert ráð fyrir neinu öðru en að hann tæki prófin.

Undarleg vinnubrögð skólastarfsfólks

Kennarinn sagði skólann hafa áhyggjur af velferð drengsins og andlegri líðan ef hann myndi mæta í prófin. „Mér fannst það frekar undarlegt þar sem andleg líðan hans var í góðu standi og ekkert sem benti til neins próf- né skólakvíða,“ skrifar Freyja.

Í kjölfarið ræddi hún við lækni sonar síns sem hann hafði hitt stuttu áður til að spyrja hvort hún teldi einhverja ástæðu vera fyrir því að sonur hennar ætti ekki að mæta í prófin. „Henni fannst þetta jafn einkennilegt og mér þar sem hann sýndi engin merki kvíða og engin ástæða væri til annars en að mæta í prófin.“

Eftir þetta sendi Freyja kennaranum tölvupóst um að hún sæi enga ástæðu fyrir því að sonur hennar mætti ekki í prófin og myndi hann því mæta.

Beittu öllum brögðum svo hann kæmi ekki í prófið

Síðar fékk Freyja símtal frá sérkennara sem hvorki hún né sonur hennar höfðu nokkru sinni hitt. Hún tjáði Freyju að sonur hennar mætti ekki mæta í prófin. Hann hefði farið í lesskimunarpróf og það hefði gengið svo illa að hann hefði brotnað niður og liðið skelfilega. Freyju þótti afar sérkennilegt að hafa ekki fengið upplýsingar um þetta frá einhverjum sem hefði verið á svæðinu, en sagði það ekki koma til greina að drengurinn mætti ekki í prófin. Svarið sem hún fékk frá sérkennaranum var þetta: „Veistu það, ef hann mætir í þessi próf þá mun hann bara upplifa sig heimskan!“

Freyja veltir upp þeirri spurningu í pistlinum hvað ætti að valda því að barn í 4. bekk upplifi sig heimskt. „Hverslags pressa er sett á barn á þeim aldri til að það upplifi sig heimskt í prófi?“

Þegar drengurinn kom heim seinna um daginn sagði hann vel hafa gengið í lesskimuninni, og fullyrti að hann hefði ekki brotnað niður og kennarinn hefði ekki talað við hann. „Ekkert af þessu gerðist. Hann brotnaði ekki niður í prófinu. Enginn ræddi við hann og ekkert gerðist, það átti bara að beita öllum ráðum til að hann myndi ekki mæta í prófin þar sem vitað var að hann myndi ekki fá yfir meðaleinkunn (sem var í góðu lagi okkar vegna, þessi próf eru ekki lögð fyrir til að bara þau börn sem skora hátt í bóklegum fögum taki þau!).“

Í kjölfarið hringdi eiginmaður Freyju í sérkennarann og sagði að drengurinn myndi mæta í prófið, annað kæmi ekki til greina. Þrátt fyrir að hafa rökrætt við Freyju, svaraði hún eiginmanni hennar á allt öðrum nótum og sagði að drengurinn mætti koma í prófin.

Lögðu fram formlega kvörtun

Í framhaldinu höfðu Freyja og eiginmaður hennar samband við námsmatsstofnun og menntamálaráðuneytið og lögðu fram formlega kvörtun. „Þá fengum við að heyra það frá námsmatsstofnun að þetta væri ekki fyrsta kvörtunin og heldur ekki í fyrsta skipti þar sem þau heyra frá skólum sem koma svona hrikalega fram við mæðurnar en um leið og feðurnir myndu blanda sér í málið myndu allir bakka.“

Ári seinna flutti fjölskyldan frá Íslandi og hefur ekki heyrt hvað hafi orðið um kvörtunina. „Ég veit í dag ekki hvað varð um þessa kvörtun, við fluttum ári seinna frá Íslandi og ég hef aldrei heyrt meir um þetta. Hann kláraði að taka prófin og gekk bara vel, fékk verðlaun frá okkur fyrir góðan árangur og sjálfur upplifði hann það slíkt að þetta gekk vel og miðað við hans stöðu námslega á þessum tíma þá kom árangur hans okkar foreldrunum á óvart, hann stóð sig nefnilega mjög vel. En öðru hverju þá hugsa ég um þennan tíma og þessi stórundarlegu samskipti skólans við okkur foreldrana og þakka kannski mest fyrir í dag að hann gangi ekki í þennan skóla í dag.“

Freyja veltir upp þeirri spurningu í pistlinum hvað ætti að …
Freyja veltir upp þeirri spurningu í pistlinum hvað ætti að valda því að barn í 4. bekk upplifi sig heimskt. mbl.is/Þorvaldur Örn
Freyja þakkar fyrir það í dag að sonur hennar gengur …
Freyja þakkar fyrir það í dag að sonur hennar gengur ekki í þennan skóla. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert