Samfylkingarfólk beðið um fjárstuðning

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar - jafnaðarmannaflokks Íslands, segir að …
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar - jafnaðarmannaflokks Íslands, segir að báðir ríkisstjórnarflokkarnir hafi aflað meira fjár frá einstaklingum og fyrirtækjum en Samfylkingin á liðnu ári. Þessu verði að breyta. mbl.is/Ómar

Samfylkingin hefur ýtt úr vör fjáröflunarátaki meðal flokksfólks. Fram kemur í tilkynningu, að hver einasti félagi í flokknum, en þeir eru yfir 16.000, sé beðinn um að styrkja Samfylkinguna um 2.690 krónur, þrisvar sinnum á jafnmörgum árum, 2014-16.

„Formaður og varaformaður, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir, sendu öllu Samfylkingarfólki bréf í gær og báðu félaga um að láta fé af hendi rakna til undirbúnings alþingiskosninga 2017. Tekið er skýrt fram að engum beri skylda til að greiða þessa upphæð og að hún tengist hvorki réttindum né skyldum félaga í Samfylkingunni,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir, að beiðni merkt „Sóknarátak jafnaðarmanna“ birtist í heimabanka flokksfélaga innan skamms.

„Báðir ríkisstjórnarflokkarnir öfluðu meira fjár frá einstaklingum og fyrirtækjum en Samfylkingin á liðnu ári og þeir munu að óbreyttu hafa yfirburðastöðu til að koma upplýsingum til kjósenda í aðdraganda kosninga. Þessu þarf að breyta og því leitum við til flokksfólks - því bakhjarlar fjöldahreyfingar jafnaðarmanna eru fyrst og síðast einstaklingarnir sem í henni eru,“ er haft eftir Árna Páli í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert