„Við erum hérna ennþá“

„Við vildum með þessu vekja athygli á því að við erum hérna ennþá og við erum ekkert nær því að fá lausn á öllum okkar málum,“ segir Gunnar Guðbjörnsson, skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz en hann ásamt fleiri tónlistarkennurum tók þátt í svokölluðu „flash mob“ í Kringlunni í kvöld.

Það fól í sér að kennararnir og fleiri söfnuðust saman á Blómatorgi Kringlunnar. Einn hóf að syngja þjóðlagið „Á Sprengisandi“ og rólega bættist í hópinn.

Gunnar segir það vera vonbrigði hversu illa gangi að semja.

„En við finnum fyrir gríðarlega mikilli samúð í samfélaginu og við erum mjög þakklát fyrir það. Við vildum gjarnan finna fyrir aðeins meiri samúð frá viðsemjendum, það myndi hjálpa mikið.“

Hann segir að verkfallið fari nú að verða erfitt fyrir marga en tónlistarskólakennarar hafa verið í verkfalli í fjórar vikur. 

„Fjórar vikur í launalausu leyfi er ekki  það sem maður óskar eftir sérstaklega rétt fyrir hátíð tónlistarinnar og ljóssins. Nú siglum við inn í þann tíma þar sem jólatónleikar tónlistarskólanna  ættu að vera í algleymingi en því miður lítur út fyrir að ekki allir fái að halda tónleika. Maður er svolítið dapur,“ segir Gunnar.

Tónlistarskólakennarar sungu í Kringlunni í kvöld.
Tónlistarskólakennarar sungu í Kringlunni í kvöld. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert