Áhrif af gosinu geta orðið hrikaleg

Eldgosið í Holuhrauni.
Eldgosið í Holuhrauni. mbl.is/RAX

„Þetta er svo gríðarlegt magn en almennt virðast menn ekki hafa gert sér grein fyrir alvöru málsins þótt gosið hafi staðið í marga mánuði,“ segir Jónas Elíasson, prófessor við Háskóla Íslands um áhrif eldgossins í Holuhrauni, í samtali við Bændablaðið.

Jónas segir að upp að vissu marki geri brennisteinn jarðvegi gróðri gott og á Íslandi sé þetta yfirleitt innan marka þrátt fyrir eldgos. Ef úrkoma komi hins vegar öll sem brennisteinsmengað súrt vatn, þá þurfi virkilega að velta fyrir sér afleiðingunum. „Þá geta menn verið í vondum málum,“ segir Jónas, við Bændablaðið.

Samkvæmt þessu er full ástæða til að hafa áhyggjur af málinu, segir í grein Bændablaðsins. Ljóst er að umhverfisáhrif á lífríki Íslands geta orðið hrikaleg af gosinu í Holuhrauni.

Ef upp koma um 450 kg af brennisteini á sekúndu, þá þýðir það  um 27.000 kg á mínútu eða 1.620.000 kg (ein milljón, sex hundruð og tuttugu þúsund kíló) á klukkustund. Þar af leiðir að úr Holuhrauni koma 38.880 tonn á sólarhring. Í dag, 20. nóvember, hefur gosið í Holuhrauni staðið í 52 daga.

Það þýðir, miðað við orð Jónasar Elíassonar, að gosið hefur skilað yfir tveim milljónum tonna, eða 2.021.76 kg  af brennisteins díoxíði út í andrúmsloftið. Ef gosið stæði í heilt ár þýddi það að útstreymið yrði tæplega 14,2 milljónir tonna, segir í frétt Bændablaðsins.

Frétt Bændablaðsins í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert