Samþykkt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að hefja kynningu á tillögu umhverfis- og samgöngusviðs borgarinnar að þrengingu á Grensásveg og gerð hjólastígs á götunni sunnan Miklubrautar.
Jafnframt var samþykkt að hefja samráð við hverfisráð, íbúasamtök, samtök hjólreiðamanna, slökkvilið, lögreglu og sjúkraflutninga og aðra hagsmunaaðila.
Fram kemur í fundargerð ráðsins að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og flugvallarvina hafi ekki gert athugasemd við að tillagan fari í víðtækt samráð og kynningu en með öllum fyrirvörum enda sé mörgum spurningum ósvarað og tillagan ekki að öllu leyti sannfærandi. Þó sé mikilvægt strax á þessum tímapunkti að fá fram sjónarmið helstu hagsmunaðila.