Íslendingar hafa dregist aftur úr nágrannaþjóðunum í útflutningi í sjávarútvegi á síðustu árum. Á sama tíma og útflutningsverðmæti sjávarafurða Færeyinga hefur tvöfaldast og Norðmanna þrefaldast hefur verðmæti útfluttrar sjávarvöru frá Íslandi nánast staðið í stað.
Þetta sagði Kjartan Ólafsson, ráðgjafi hjá Markó Partners, í erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni 2014 í gær, en um hana er fjallað í Morgunblaðinu í dag.
„Við höfum of lengi verið föst í skotgröfum, svo sem um fiskveiðistjórnunarkerfið og að einhverju leyti í umræðum um hrun fjármálakerfisins og því ekki náð að sigla á þeirri miklu bylgju sem keppinautar okkar á markaðnum hafa gert,“ sagði Kjartan í samtali við Morgunblaðið. Hann benti á að fyrir nokkrum árum hefðu Íslendingar átt nokkur af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum Evrópu. Það væri liðin tíð. „Þar af leiðandi erum við ekki eins öflugir og atkvæðamiklir á markaðnum og við vorum,“ sagði Kjartan.