„Sú lækkun á fjármunum til hráefniskaupa sem tillaga að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár gerir ráð fyrir skýrist ekki af því að gert sé ráð fyrir minna eða verra hráefni á næsta ári, heldur hinu að leikskólarnir hafa fengið mun hagstæðari kjör í kaupum á hráefnum í kjölfar úrboða og betri gæðastjórnunar,“ skrifar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, í vikulegt fréttabréf sitt. Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að borgaryfirvöld ætli að lækka framlög til hráefniskaupa leikskólanna á næsta ári um 7,5 prósent.
„Það er mikilvægt að leikskólabörn fái hollan og næringarríkan mat í leikskólanum. Mörg skref hafa verið tekin á síðustu árum í þá átt,“ skrifar Dagur.
„Eftir að landlæknir gaf út manneldismarkmið sín setti Reykjavíkurborg strax a dagskrá að ná þeim í nokkrum skrefum. Við erum að nálgast þessi markmið landlæknis ár frá ári og settum meiri peninga í matinn á þessu ári. Sú lækkun á fjármunum til hráefniskaupa sem tillaga að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár gerir ráð fyrir skýrist ekki af því að gert sé ráð fyrir minna eða verra hráefni á næsta ári, heldur hinu að leikskólarnir hafa fengið mun hagstæðari kjör í kaupum á hráefnum í kjölfar úrboða og betri gæðastjórnunar. Meirihlutinn mun fara yfir þær ábendingar sem komið hafa fram í málinu og gera tillögur fyrir afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar sem miða að því að halda áfram tryggja betri og betri mat í leikskólunum.“