Eftir viðræður Landhelgisgæslunnar við norska herinn í gær og í dag liggur nú fyrir ákvörðun um að vopnunum, sem bárust fyrr á þessu ári, verður skilað til Norðmanna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Fram kemur, að Gæslan hafi hingað til ekki þurft að greiða fyrir þau vopn sem hún hafi fengið frá Norðmönnum og öðrum nágrannaþjóðum á undanförnum árum og áratugum.
„Raunar er nándar öll vopnaeign Landhelgisgæslunnar (90%) gjafir frá nágrannaþjóðunum sem tekin hafa verið úr notkun hjá þeim. Nú síðast árið 2013 bárust 10 vopn að gjöf frá Norðmönnum. Gert var ráð fyrir að það sama ætti við í þessu tilfelli.
Er þessi ákvörðun tekin að höfðu samráði við Norðmenn og verður haft samráð við þá um flutning vopnanna til Noregs við fyrstu hentugleika. Þá var haft samráð við Ríkislögreglustjóra sem á stærstan hluta vopnanna,“ segir í tilkynningunni.
„Mikilvægt er að endurnýja reglulega bæði vopn og tækjakost Landhelgisgæslunnar. Vegna fjárskorts líður oft langur tími á milli þess sem það er gert. Það er að sumu leyti gæfa okkar sem friðsamrar þjóðar að vopn séu ekki mikilvægasti búnaðurinn sem heyrir til okkar starfsemi. Raunar hefur Landhelgisgæslan ekki hleypt af skoti í tengslum við verkefni sín í um fjóra áratugi, eða frá því í Þorskastríðunum. Vonandi verður þess enn langt að bíða.
Kaup á nýrri vopnum í stað þeirra sem Landhelgisgæslan hefur haft til umráða telst ekki til þeirra forgangsverkefna sem stofnunin leggur mesta áherslu á. Önnur verkefni, svo sem endurnýjun björgunarþyrlna og bættur rekstrargrundvöllur skipa, eru mun brýnni. Því kom ekki til greina að verja hluta af takmörkuðu fé Landhelgisgæslunnar til að kaupa vopnin af Norðmönnum,“ segir ennfremur.