Aðförin að einkahjólinu

Guðmundur Kristján hefur undanfarið hjólað Hverfisgötuna til og frá vinnu, allt frá því henni var breytt til að gera hjólreiðamönnum auðveldara að komast leiðar sinnar um hana.

Hann hefur þó ítrekað lent í því að bílum er lagt yfir hjóla- og göngustíginn, sem þvingar hjólandi og gangandi umferð út á akbrautina. Hann hefur birt myndir af þessum hindrunum á twittersíðu sinni.

„Þetta er fyrst og fremst algengt á Hverfisgötunni. Það er að einhverju leyti skiljanlegt, það eru miklar framkvæmdir í gangi þarna og mikið um að vera og mikil uppbygging. Þar af leiðandi er mikið verið að lesta og losa. Mjög oft lokar þetta alveg bæði hjólastígnum og göngustígnum. Ég held ég hafi náð mynd af einum sem lokaði næstum stæði fyrir hreyfihamlaða, hjólastígnum og göngustígnum,“ segir Guðmundur Kristján, hjólreiðamaður.

Guðmundur hjólar Hverfisgötuna á hverjum degi og segist mjög ánægður með þær framkvæmdir sem hafa verið gerðar á henni. „Umferðin hefur aukist mjög mikið á henni, bæði hjólandi og gangandi vegfarenda. Þessir árekstrar mismunandi ferðamáta setja svolítið svartan blett á þetta.“

Sagt að halda bara kjafti

Hann segir hvorki lögreglu né stöðumælaverði virðast hafa mannskap til að skipta sér af bílum sem leggja á göngu- og hjólastígum. „Þegar maður ber þetta upp við ökumennina sjálfa þá mætir manni yfirleitt bara skætingur og hortugheit. Þegar ég bendi sumum leigubílstjórum á að þeir séu beinlínis að beina gangandi og hjólandi umferð út í akandi umferð, þá er manni bara sagt að halda kjafti,“ segir Guðmundur.

„Maður skilur auðvitað að atvinnubílstjórar þurfi að koma vörum að og frá uppbyggingarreitum, verslunum og veitingastöðum. Það er spurning hvort þurfi að koma upp losunarstæðum eða eitthvað í þá veru. Það þarf að eiga sér stað samtal um þetta því eins og þetta er núna virðast þessir bílar bara vera þarna nokkurn veginn óáreittir. Þegar það er rigning og rok og slæmt skyggni er manni ekkert vel við að fara út í umferðina.“ 

Þá hafi hann horft upp á foreldra með barnavagna þurfa að taka sveig út á akbrautina til að komast framhjá bílum á gangstéttinni. „Þá er manni nóg boðið.“

Nóg af bílastæðum í næsta nágrenni

Guðmundur segir að í mörgum tilvikum sé í raun nóg af bílastæðum rétt hjá þeim stöðum þar sem bílar leggja á svæði hjólandi og gangandi. „Jafnvel hinum megin við götuna í svona fimm metra fjarlægð. Víðast hvar erlendis stoppa svona bílar bara úti á götu og setja viðvörunarljósin í gang. Það myndi skapa meira öryggi. Það er ekkert mál fyrir bíla að sveigja framhjá öðrum bílum, það er alvanalegt. Það horfir öðruvísi við fyrir þá sem eru ekki inni í því örugga stálboxi sem bílar eru.“ 

Hann segir skilningsleysi helstu ástæðuna fyrir þessum árekstrum. „Það hefur orðið gríðarleg aukning í hjólreiðum sérstaklega og breytingar á ferðavenjum borgarbúa. Það þurfa allir að hjálpast að við að smyrja þetta saman þannig að mismunandi ferðamátar geti rúmast samhliða í göturýminu, án þess að það séu svona óþarfa árekstrar,“ segir Guðmundur.

„Hjólreiðamenningin þarf að auðvitað að batna að einhverju leyti líka og allir í mörgum tilvikum að taka meira tillit. Þetta snýst fyrst og fremst um fræðslu og viðhorfsbreytingar, því þetta er bara að fara að aukast. Aðalskipulag Reykjavíkur miðar að því að hjólreiðar aukist í borginni svo um munar á næstu árum,“ segir Guðmundur. 

Hann bendir líka á að Hverfisgatan sé óðum að lifna við með frábærum veitingastöðum og verslunum sem eiga hvergi betur heima en á nýuppgerðri Hverfisgötunni og þess vegna þarf að finna ásættanlega lausn á lestunar- og losunarmálum fyrir verslun og þjónustu.

Sektarherferð ekki lausnin

Hann bendir á ferðavenjukönnun sem birtist í Morgunblaðinu á fimmtudaginn þar sem hann segir kröfur borgarbúa skýrar:

„Þeir vilja minni bílaumferð og betri innviði fyrir hjólreiðar og gangandi og betri almenningssamgöngur. Ég held að það sé ekki málið að fara í neina sektarherferð, það er ekki lausnin. Hún er miklu frekar að auka fræðslu.“

„Í mörgum borgum á lestun og losun sér stað fyrir sjö á morgnana eða eftir sjö á kvöldin þegar fólk er ekki að fara til og frá vinnu. Það hlýtur að vera hægt að finna lausn á þessu þannig að allir geti unað við sitt. Í dag ríkir nokkur kergja og það viðhorf virðist vera verst hjá atvinnubílstjórum, að við hjólreiðamennirnir séum frekir. Í einhverjum tilvikum er það eflaust rétt, og hjólreiðamenn rétt eins og aðrir ökumenn eiga að vanda sig í umferðinni,“ segir Guðmundur.

Eins og staðan er í dag segir Guðmundur hins vegar að öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sé oft stefnt í hættu á sérmerktum hjóla og gönguleiðum og það á ekki að viðgangast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert