Brengluð sýn náð athyglinni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

„Illmælgi, sleggjudómar og niðurrifstal hefur aldrei átt jafngreiða leið að almennri umræðu og nú. Að mestu leyti verður þetta til hjá fámennum hópi fólks sem er alls ekki er lýsandi fyrir samfélagið en tíðarandinn er þó slíkur að þessi brenglaða sýn nær athyglinni og gefur tóninn fyrir umræðuna. Það getur haft raunveruleg og mjög neikvæð áhrif fyrir samfélagið.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í ræðu sem hann flutti á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins í dag. Ofangreind ummæli lét hann falla eftir að hafa vikið í ræðu sinni að mikilvægi þess að landsmenn hafi trú á tækifærum Íslands. Hann segir það spurningu um þjóðarhag að landsmenn læri að meta það sem sé gott á Íslandi.

„Forsenda þess að nýta tækifæri Íslands og efla kosti íslensks samfélags er að við trúum á landið og þá framtíð sem það getur skapað. Þjóð sem hefur ekki trú á sjálfri sér nær ekki árangri,“ sagði Sigmundur.

Fásinna að glata trúnni nú

Hann benti á í ræðu sinni, að dagblaðið Tíminn hefði gefið út sérstakt blað árið 1938 þegar 20 ár voru liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki, en þá hafði heimskreppa ríkt í átta ár og horfur í alþjóðamálum verið ógnvænlegar.

„En blaðið var gefið út til að minna á þann gríðarlega árangur sem hafði náðst, þær stórtæku framfarir sem höfðu orðið á Íslandi frá því að landið varð sjálfstætt. Þar er rakin hreint ótrúleg framfarasaga á erfiðum og viðsjárverðum tímum, saga framfara sem varð að raunveruleika vegna þess að þjóðin trúði á hugmyndina um sjálfstætt Ísland og óþrjótandi tækifæri þess.

Þeirri trú megum við aldrei glata, og það væri hrein fásinna að gera það nú, þegar við erum aftur að ná okkur á strik og höfum sýnt fram á árangur sem sker sig úr í Evrópu allri,“ sagði Sigmundur.

Draumurinn um vonlausa Ísland að fjara út

Hann bætti við, að þó væru þeir til sem tryðu ekki á þessa hugmynd sem Íslendingum hefðu reynst svo vel á 20. öldinni

„Þetta eru þeir sem litu á fall fjármálakerfisins, bankahrunið, sem staðfestingu þess að hugmyndin hefði ekki gengið upp. Þeir töldu áfallið vera einhvers konar réttlætingu á sjálfum sér og því viðhorfi að Ísland væri og hefði alltaf verið vonlaust. Nú, sex árum seinna óttast þeir hins vegar að draumurinn um vonlausa Ísland sé að fjara út. Viðbrögðin birtast oft sem furðuleg heift og því miður hefur þessi heift og neikvæðni fengið meiri athygli og verið meira ráðandi í umræðunni en eðlilegt, hvað þá æskilegt, getur talist,“ sagði Sigmundur.

„Aldrei hefur verið jafn mikill munur á raunverulegri stöðu mála í íslensku samfélagi og framtíðarhorfum okkar góða lands og birtingarmynd stöðunnar í umræðu og væntingum um framtíðina. Og þótt umræða um þjóðfélagsmál hafi oft verið óbilgjörn á Íslandi hefur hún líklega sjaldan eða aldrei náð því marki sem við sjáum nú. Illmælgi, sleggjudómar og niðurrifstal hefur aldrei átt jafngreiða leið að almennri umræðu og nú. Að mestu leyti verður þetta til hjá fámennum hópi fólks sem er alls ekki er lýsandi fyrir samfélagið en tíðarandinn er þó slíkur að þessi brenglaða sýn nær athyglinni og gefur tóninn fyrir umræðuna. Það getur haft raunveruleg og mjög neikvæð áhrif fyrir samfélagið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert