Það er líf eftir leiðréttingu hjá embætti ríkisskattstjóra en ekki liggur alveg ljóst fyrir hvenær það hefst. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að um 80 manns hjá embættinu hafi komið að vinnunni við skuldaleiðréttinguna á einum eða öðrum tíma en að jafnaði hafi þeir verið í kringum fimmtíu talsins.
„Það má reikna með því að þetta verkefni verði viðvarandi alla vega fram á vor en það verður ekki sami kraftur í því og verið hefur undanfarna mánuði,“ sagði Skúli Eggert í samtali við Morgunblaðið.
„Við höfum stundum sagt í góðlátlegu gríni að einn af kostum leiðréttingarinnar sé sá að hún er tímabundið úrræði sem tekur enda! Vinna við höfuðstólsleiðréttinguna hefur verið mikill sprettur og öll þau sem að þessu hafa unnið hafa lagt mjög hart að sér að koma verkefninu í framkvæmd og að ljúka því.“
Skúli Eggert segir að verkefnisstjórn forsætis- og fjármálaráðuneytis hafi komið á fund til ríkisskattstjóra seint í janúar á þessu ári til þess að ræða það hvort RSK gæti liðsinnt þeim. Í kjölfar þess hafi hann verið kallaður á fund í fjármálaráðuneytinu hinn 5. febrúar og þar hafi verið ákveðið að ríkisskattstjóraembættið kæmi að verkefninu með verkefnisstjórninni og myndi taka á móti umsóknum, annast þjónustu við umsækjendur og tilkynna niðurstöður.
„Undirbúningurinn hjá okkur var fjórþættur. Í fyrsta lagi voru það lagaleg málefni, að taka þátt í samningu lagafrumvarpa. Annar hlutinn var síðan tæknivinna, þ.e.a.s. hvernig ætti að leiða allar þessar upplýsingar saman og vinna úr þeim. Þriðji hlutinn var upplýsingamiðlun, hvernig ætti að leiðbeina fólki um hvernig það ætti að sækja um og þýðing umsókna. Fjórða atriðið sneri svo að hinum rekstrarlegu málefnum, að ráða inn mannafla, afla húsnæðis og tækjabúnaðar,“ sagði Skúli Eggert.
Síðan segir Skúli Eggert að tekið hafi við mjög flókin samhæfing fjölda aðila. Þar hafi komið til verkefnisstjórnin, sem Guðrún Ögmundsdóttir stýrði og Tryggvi Þór Herbertsson, sem var verkefnisstjóri. „Samhæfingin var við fjármálafyrirtæki, við lífeyrissjóði, við hugbúnaðarhús og ýmsa aðra aðila sem komu að þessu máli. Það er fljótlega á þessum tíma, sem ákvörðun er tekin um það af verkefnisstjórninni og þeim ráðgjöfum sem henni voru til halds og trausts, að allt umsóknar- og ráðstöfunarferlið verði rafrænt frá upphafi til enda. Það er í rauninni í fyrsta sinn í Íslandssögunni sem menn taka svona stórt verkefni og ákveða að það verði allt í rafrænni stjórnsýslu,“ segir Skúli Eggert.
– Nú hafið þið hjá ríkisskattstjóra og verkefnisstjórnin fengið mikið hól fyrir framkvæmd og útfærslu skuldaleiðréttingarinnar. Hvernig finnst þér sjálfum að ykkur hafi tekist til?
„Ég gerði mér strax grein fyrir því, þegar verkefnið kom til, að þetta myndi reyna mikið á einkum með þeim hætti að við þyrftum að taka lykilstarfsmenn hjá embættinu frá þeim verkum sem þeir voru í og setja þá í þetta verkefni. Það hefði aldrei gengið að keyra undirbúninginn á nýliðum. Settur var saman átta manna stýrihópur sem fundaði oftast í upphafi hvers vinnudags og í framhaldinu fór hluti mannaflans frá okkur á fundi í fjármálaráðuneytinu með verkefnisstjórninni.“
Sett var upp vefsvæði og rafrænar leiðbeiningar þar sem áhersla var lögð á aðgengilega framsetningu þar sem skýringar voru birtar á myndböndum. „Ég tel að það hafi verið einn af þeim þáttum sem féllu í kramið hjá þjóðinni,“ segir Skúli Eggert. „Þetta voru mjög skýrar en að mörgu leyti stuttorðar leiðbeiningar og vefurinn var með einfalda framsetningu. Síðast en ekki síst held ég að eftirvæntingin sem ríkti meðal þjóðarinnar og það að þetta virkaði, sem hjálpaði til, að allt gekk þetta svona vel. Birtingin sjálf á niðurstöðunum var dálítið snörp. Á einum sólarhring fengum við 101 þúsund heimsóknir og Advanía tókst að halda þjónustunni uppi allan tímann.“
Eitt atriði er eftir en það er samþykktarferlið og ráðstöfun fjármunanna. „Þar erum við aftur að stíga ný skref sem við höfum ekki gert áður í opinberri stjórnsýslu hér á landi á jafn víðtækan hátt en það er sú staðreynd að undirritunin þarf að vera rafræn. Slíkt er gert með rafrænum skilríkjum. Það er þannig hliðarverkefni að koma rafrænum skilríkjum í almenna notkun hér á landi, nokkuð sem lengi hefur verið í undirbúningi. Það hefur gengið mjög vel og sem dæmi um það að á síðustu dögum hafa 10.000 skilríki verið virkjuð, eða u.þ.b. 1.000 að meðaltali á dag. Öll leiðréttingin og sú vinna sem þar hefur átt sér stað hefur verið mjög lærdómsríkt ferli fyrir okkur hérna og ég held fyrir alla þá sem hafa tekið þátt í verkefninu. Þetta er örugglega eitt flóknasta upplýsingatækniverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi.“ sagði Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.