Þeir sem komið hafa á Flugsafn Íslands vita að það eru ótrúlegustu munir varðveittir. Brot og stykki úr flugsögu Íslands eru þar vel varðveitt í ýmsum útfærslum. Í dag var sérstök hátíðardagskrá í safninu sem stóð fram eftir degi. Utan um dagskrána heldur félagið Örninn sem er hollvinafélag Flugsafns Íslands.
Pétur P. Johnson er formaður félagsins og útskýrir hann að félagið heiti í höfuðið á fyrstu flugvél Flugfélags Akureyrar en það var vél af gerðinni Waco YKS-7 og bar hún einkennisstafina TF-ÖRN. Var hún alla jafna kölluð Örninn. Sambærileg vél er varðveitt á flugsafninu með tilliti til sögunnar, sem er býsna áhugaverð fyrir margra hluta sakir. „Safnið er mjög flott og við getum verið stolt af því,“ segir Pétur sem sannarlega hefur samanburðinn því hann hefur skoðað fjölda flugsafna erlendis.
Það má velta því fyrir sér í ljósi sögunnar hvort íslenskir flugmenn sem lögðu mikið á sig til að koma hér á almennilegum flugsamgöngum hafi verið þrjóskari en gengur og gerist. Elja manna sem endurspeglast í flugsögunni ber vott um hugsjón framar öðru. Gróðahyggja virðist ekki hafa verið hvatinn að baki því að stofna hér flugfélög heldur viljinn til að hefja sig til flugs, á eyju langt norður í hafi. Pétur vill ekki meina að stéttin sem slík einkennist af meiri þrjósku en góðu hófi gegnir en segir að flugsafnið sé meðal annars afrakstur töluverðrar þrjósku eins manns og fyrir það er hann þakklátur. „Svanbjörn heitinn Sigurðsson var aðalhvatamaðurinn að stofnun safnsins. Hann var afar þrjóskur og safnið væri ekki þar sem það er í dag hefði hans ekki notið við. Hann fékk menn í lið með sér og ef þeir voru eitthvað að malda í móinn þá sagðist Svanbjörn bara koma daginn eftir og það gerði hann og fékk mjög góða menn með sér. Icelandair-menn voru snemma komnir eftir stækkun safnsins, sömuleiðis Arngrímur og Atlanta-menn og Halldór Blöndal sem var samgönguráðherra þegar safnið var stofnað og studdi vel við bakið á flugsafnsmönnum á fyrstu árum þess,“ segir Pétur. Árið 1999 var Flugsafnið opnað í stóru flugskýli á Akureyri og ekki leið á löngu þar til finna þurfti stærra húsnæði undir herlegheitin. Árið 2006 var hafist handa við byggingu mun stærra húsnæðis og þar er safnið í dag, við flugvöllinn á Akureyri.
Pétur á sér vissulega sínar eftirlætisvélar á flugsafninu. „Fyrir það fyrsta er það TF-SUX, Klemm 25 frá Þýskalandi. Hún var smíðuð árið 1934 og kom hingað til lands með Þjóðverjum sem voru hér í svifflugleiðangri árið 1938 og þessi vél var skilin eftir. Hún var notuð næstu árin til að kanna hugsanlega lendingarstaði um allt land fyrir landflugvélar. Þetta vara til dæmis fyrsta vélin til að lenda í Vestmannaeyjum 1939 og það var Agnar Kofoed-Hansen sem lenti henni þar,“ segir Pétur um þessa merkilegu vél sem einnig var notuð við póstflug, farþegaflug og sjúkraflug til Öræfa og var um leið fyrsta flugvélin sem lenti þar. „Hún var meira að segja nokkrum sinnum notuð í síldarleit. Þá var Örninn, hinn eini og sanni, í skoðun en flugfélag Íslands þurfti að uppfylla samninga vegna síldarleitarinnar og þá fékk Örn Ó. Johnson vélina lánaða hjá Flugmálafélaginu og fór í síldarleit,“ segir Pétur.