Mestu fjárframlög til LSH frá 2008

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu sinni á haustfundi miðstjórnar Framsóknar á Hornafirði í dag að algjör umskipti hefðu  orðið í landinu á fjölmörgum sviðum.

Nefndi hann sérstaklega niðurstöður skuldaleiðréttingarinnar sem tilkynntar voru fyrr í mánuðinum. 

„Á innan við einu og hálfu ári er skuldaleiðréttingin komin til framkvæmda. Mál sem við framsóknarmenn höfum barist fyrir frá því í upphafi árs 2009. Mál sem við töldum svo mikilvægt að við vorum reiðubúin til að gefa öðrum flokkum tækifæri til að stjórna í minnihlutastjórn gegn því skilyrði að ráðist yrði í aðgerðina,“ sagði Sigmundur í ræðu sinni.

Í ræðunni sagði Sigmundur jafnframt frá því að fjárframlög til Landspítalans á næsta ári verða þau mestu frá árinu 2008 og þá ekki aðeins í krónutölu heldur að raunvirði á föstu verðlagi. 

„Við erum að komast í stöðu til að bæta í og halda áfram endurreisn heilbrigðiskerfisins. Það er þó mikilvægt að ekki gleymist í þeirri umræðu allri að þótt Landspítalinn sé gríðarlega mikilvæg stoð í heilbrigðiskerfinu er hann ekki heilbrigðiskerfið allt,“ sagði Sigmundur.

Sigmundur sagði frá því að nú stæði yfir vinna við fjárlög næsta árs á Alþingi og að eftir helgi yrðu kynntar tillögur um breytingar vegna annarrar umræðu fjárlaga. Sagði hann að þar væri von á góðum fréttum og ekki bara á sviði heilbrigðismála. Jafnframt sagði hann að sá agi sem ný ríkisstjórn innleiddi í ríkisfjármálunum væri þegar byrjaður að skila sér.

„Nú í byrjun nýrrar viku munum við sjá að traustari stoðum verður rennt undir fjölmörg mikilvæg verkefni og stofnanir ríkisins. Þannig munu heilbrigðis- og menntastofnanir fá aukin framlög en einnig aðrar grunnstoðir eins og Landhelgisgæslan og mikilvæg verkefni á borð við lýðheilsuátak og byggðamál,“ sagði Sigmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka