„Það er alveg greinilegt að gagnrýni okkar á fjarlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar veldur því að hún er komin í gríðarlegt undanhald og afneitar bæði tillögum sínum um heilbrigðismál og er jafnframt komin á undanhald hvað varðar útfærslu á virðisaukaskattinum.“
Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, um ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á haustþingi miðstjórnar Framsóknarflokksins sem fór fram í dag.
„Nú hefur forsætisráðherra einnig viðurkennt það sem við höfum haldið fram, sem er að þessar breytingar bitna þyngst á þeim sem minnst hafa milli handanna, það er alveg greinilegt á þessari ræðu,“ segir Árni.
Hann segir að Samfylkingin bíði nú eftir því að sjá hverju þetta undanhald skilar í beinhörðum tillögum.
„En við munu sjálf leggja til tillögur til breytinga á fjárlagafrumvarpinu sem miðar að því að mæta brýnni þörf í heilbrigðismálum og menntakerfi og til að tryggja réttindi fólks á vinnumarkaði og í atvinnuleysi. Það hefur augljóslega virkað síðustu vikur að setja fram skýr efnisleg rök: þótt þeir hafi reynt vikum saman að telja okkur trú um að hvítt sé svart, þá er það ekki hægt endalaust.“